Hvers virði er allt heimsins prjál?

Hvar sem okkur ber niður í markaðssetningu og þeirri hugmynd að einhver geti boðið öðrum eitthvað sem er eftirsóknarvert og hafi merkingu hlýtur að koma upp spurningin um það hvaða virði umræddur hlutur eða hugmynd hefur. Það getur verið grundvallarspurning að velta því fyrir sér hvað felst nákvæmlega í því sem verið er að markaðssetja, hvað næst fram með því? Hvaða breytingar fylgja og hvaða máli skiptir það yfir höfuð?

Samkvæmt fyrstu lexíu í markaðsetningu ber mér að líta í eigin barm, fyrsta skoðun byrjar í mínum eigin ranni. Sem starfsmaður símenntunarmiðstöðvar er ég fulltrúi stofnunar sem býður nám og kennslu, hugmyndina um ný tækifæri í formi starfsþjálfunar, viðurkenningar eða réttinda. Það eru áþreifanlegu áhrifin. Hið ósýnilega er reyndar miklu meira spennandi og eitthvað sem vert er að skoða, það eru hlutir eins og áhrif á lífsgæði, sjálfstraust, hugmyndir um eigin getu og svo framvegis.

Frá því að ég byrjaði að kenna hjá MSS, sem verktaki, hef ég deilt hugmyndum mínum um kennslufræði og leiðir í námi og kennslu fullorðinna. Ég var, án þess að vita það sjálf, að sá fræjum að starfi mínu sem verkefnastjóra. Í því lít ég á hlutverk mitt sem kennslufræðilegt, ég á í samræðum við kennara, nemendur og samstarfsfélaga um aðferðir í kennslu, við námsmat, samskipti og margt fleira. Ég tek við ábendingum frá nemendum og nýti gagnrýni til þess að þróa og betrumbæta. Þá er ég oft milliliður sem kemur hlutum á framfæri við þá sem málið snertir. Reynsla mín af samskiptum við fjölmarga fullorðna nemendur styrkir mig í því að gefa ráð og stuðning til þeirra sem leita til mín.

Ég get nýtt virði mitt innan vinnustaðarins til þess að efla og útvíkka hugmyndir mínar og annarra um fullorðinsfræðslu og út á við hef ég tækifæri til þess að deila þekkingu minni og hafa áhrif í stærra samhengi.

Skildu eftir svar