Greinasafn fyrir merki: virði

Er menntun eins og hver önnur vara?

Ég velti því fyrir mér hvort nám, námskeið, námsframboð og boð um hvers konar fræðslu sé eins og hver önnur vara eða þjónusta sem boðin er til sölu eða afnota af einhverju tagi. Fyrirfram hélt ég að önnur lögmál giltu, en hefði samt engin sérstök rök fyrir því í eigin huga.
Áður en ég mætti í fyrsta tímann í Markaðssetning fræðslutilboða fyrir fullorðna hjá Hróbjarti og Magnúsi velti ég því stuttlega fyrir mér hvað við værum að fara að læra á þessu námskeiði. Ég sá á kennsluáætluninni að við ætluðum meðal annars að svara eftirfarandi spurningum: „Hvernig hönnum við og skipuleggjum námskeið eða önnur námstilboð þannig að þau höfði til þeirra sem þau eru skipulögð fyrir? Hvernig náum við til „réttu“ þátttakend-anna? Hvernig er hægt að nota nýja miðla til að ná til þátttakenda?“ (Hróbjartur Árnason og Magnús Pálsson, kennsluáætlun, NAF005F haust 2021). Enn var ég viss um að það færi engin að skipuleggja námskeið, setja saman námsbraut eða stofna skóla nema hafa örugga viðskiptavini. Annað hvort væri sérstaklega óskað eftir fræðslunni af nemendunum, frá atvinnulífinu, að hið opinbera vantaði nám til að tryggja að hægt væri að fullnægja markmiðum eða eitthvað slíkt. Þetta var um það bil það sem var að gutla í höfðinu á mér. Enn var hugsunin frekar grunn og á eins konar floti í hausnum á mér því ég hafði aldrei velt því fyrir mér áður hvort lögmálin væru önnur.
Þá fór ég að reyna að svara spurningunni frá hinu sjónarhorninu. Hvað drífur einhvern áfram í að selja einhverja vöru eða þjónustu. Án þess að vera búin að lesa mikið í fræðunum, held ég að það sé tvennt. Markaðurinn kallar á eitthvað sem þú átt í pokahorninu eða þú ert alveg viss um að vera með eitthvað í þínum fórum sem þú getur miðlað til annarra, annað hvort frá sjálfum þér eða sem milliliður. Sá sem hefur sölu á nýjum gosdrykk hlýtur að luma á rosalegri uppskrift eða vera nokkuð viss um þorsta eða löngun hjá einhverjum hópi og sér þar tækifæri. Þetta hafði ég talið mér trú um og það hefur styrkst með lestrinum í haust. Áfram var spurningin þó opin og ég fór smá saman að sannfærast um að það væri ekki munur á námsframboði og öðru framboði.
Enn eitt sjónarhornið sem ég fór að skoða var eigin reynsla. Af hverju fór ég að bjóða upp á námskeið þar sem ég kenni um hugmyndafræði Uppbyggingar (e. Restitution) og verkfæri og leiðir til að vinna með hana í inni í menntastofnunum? Hvað dreif mig áfram? Í mínu tilviki þá lærði ég um hugmyndafræðina, vann samkvæmt henni, gerðist leiðbeinandi og tók virkan þátt í félagsskap áhugafólks um fræðin áður en ég fór að bjóða upp á námskeið. En hvers vegna? Svarið er líklega tvíþætt, eftirspurnin var og er mikil og ég er viss um að aðrir geti nýtt sér það sem ég hafði lært. Þannig að ef ég ber það saman við gosdrykkjaframleiðandann þá var ég bæði með góða uppskrift í mínum fórum (framboð) og hóp þyrstra tilvonandi neytenda (virk eftirspurn).
Þegar kom að því að mæta í innilotu og byrja að kafa enn frekar í fræðunum, hvað kom í ljós? Ekkert var minnst á sérstöðu náms eða fræðslutilboða samanborið við aðra vöru eða þjónustu sem markaðssett er. Mörg skemmtileg dæmi voru tekin og enginn sérstakur stallur eða eitthvað slíkt fyrir þessa gerð af vöru. Annað kom mér meira á óvart að þekking mín og reynsla af uppbyggingunni mun líklega koma mér mun meira að gagni en ég hafði fyrir fram átt von á. Mikill tími fór í heimspekilegar umræður um vöxt, trúverðugleika, raunverulegt virði og hvernig hver og einn verður að átta sig á því fyrir hvað hann stendur til að geta byggt það upp.
Ég hlakka enn meira til að læra meira um markaðssetningu fræðslutilboða því nú finnst mér markaðsfræði sem jafnvel er að gufa upp sem ein stök fræðigrein enn meira spennandi sem grein tvinnuð inn í félagsfræði, sálfræði og aðrar greinar sem fjalla um hegðun, framkomu og samskipti okkar mannanna.
Í námsbókinni okkar Foundations of Marketing segja höfundarnir, John Fahy og David Jobber meðal annars að menntastofnanir hafi orðið markaðsdrifnar í auknu mæli. Þeir segja samfara samfélagslegum breytingum hafi samkeppni um nemendur aukist. Þeir segja háskóla hafa þurft að skilgreina sig upp á nýtt, búa til vörumerki og fara í markaðsherferðir og kynningar. Þeir segja skóla hafa farið út í samskonar greiningavinnu og fyrirtæki við að bera kennsl á væntanlega viðskiptavini og þeir hafi breytt þjálfun fyrir þjónustu í þeim tilgangi að breyta fyrirspurnum í sölu (2019:13). Þarna er menntun bara tekin sem dæmi eins og hvert annað fyrirbæri.
Ætli mitt ævistarf, kennsla og miðlun þekkingar, sé hvorki nokkuð merkilegri né ómerkilegri en hver önnur vara eða þjónusta. Markaðsfræði er markaðsfræði og ég hlakka til að kynnast nánar þeim lögmálum sem gilda þegar kemur að þessari hlið mannlegs eðlist því þetta eru víst engin geimvísindi heldur endalaus spírall þar sem við kynnumst nánar hegðun út frá framboði, eftirspurn, trúverðugleika, virði, tengslum, gæðum, vexti, samkeppni, vali, vörum, staðsetningu, menningu, ferlum, aðgengi og upplifun svo eitthvað sé nefnt.... Meira...

Hvers ,,virði“ er ég?

My value is not determined by what people think about me. – FS News Online

Í upphafi námskeiðs er allt svo nýtt og spennandi og námsefni fyrstu vikunnar fékk mig virkilega til þess að hugsa. Ég hef lítið velt fyrir mér markaðsmálum þar til nýlega. Nú er ég að pæla í öllu því sem ég sé í kringum mig, auglýsingum í sjónvarpi, á samfélagsmiðlum, í útvarpi, í bæklingum og annars staðar. Ég er að velta fyrir mér virði vörumerkja og fyrirtækja. Ég hef ekki mikið velt fyrir mér sögu merkja og þeim hindrunum sem hafa orðið á vegi þeirra og hafa leitt þau á þann stað sem þau eru á í dag eða vinnunni sem liggur að baki merkis. Núna mun ég pæla meira í þessu, sérstaklega kjarnavirði fyrirtækja og vörumerkja, hver gildi þeirra eru og hvað þau gera til þess að framfylgja þeim. Hugsun mín er orðin gagnrýnni gagnvart auglýsingum og nú allt í einu sé ég hvað sumar auglýsingar eða slagorð eru frábær en önnur bara alls ekki.
... Meira...

Hvers virði er allt heimsins prjál?

Hvar sem okkur ber niður í markaðssetningu og þeirri hugmynd að einhver geti boðið öðrum eitthvað sem er eftirsóknarvert og hafi merkingu hlýtur að koma upp spurningin um það hvaða virði umræddur hlutur eða hugmynd hefur. Það getur verið grundvallarspurning að velta því fyrir sér hvað felst nákvæmlega í því sem verið er að markaðssetja, hvað næst fram með því? Hvaða breytingar fylgja og hvaða máli skiptir það yfir höfuð? Samkvæmt fyrstu lexíu í markaðsetningu ber mér að líta í eigin barm, fyrsta skoðun byrjar í mínum eigin ranni. Sem starfsmaður símenntunarmiðstöðvar er ég fulltrúi stofnunar sem býður nám og kennslu, hugmyndina um ný tækifæri í formi starfsþjálfunar, viðurkenningar eða réttinda. Það eru áþreifanlegu áhrifin. Hið ósýnilega er reyndar miklu meira spennandi og eitthvað sem vert er að skoða, það eru hlutir eins og áhrif á lífsgæði, sjálfstraust, hugmyndir um eigin getu og svo framvegis. Frá því að ég byrjaði að kenna hjá MSS, sem verktaki, hef ég deilt hugmyndum mínum um kennslufræði og leiðir í námi og kennslu fullorðinna. Ég var, án þess að vita það sjálf, að sá fræjum að starfi mínu sem verkefnastjóra. Í því lít ég á hlutverk mitt sem kennslufræðilegt, ég á í samræðum við kennara, nemendur og samstarfsfélaga um aðferðir í kennslu, við námsmat, samskipti og margt fleira. Ég tek við ábendingum frá nemendum og nýti gagnrýni til þess að þróa og betrumbæta. Þá er ég oft milliliður sem kemur hlutum á framfæri við þá sem málið snertir. Reynsla mín af samskiptum við fjölmarga fullorðna nemendur styrkir mig í því að gefa ráð og stuðning til þeirra sem leita til mín. Ég get nýtt virði mitt innan vinnustaðarins til þess að efla og útvíkka hugmyndir mínar og annarra um fullorðinsfræðslu og út á við hef ég tækifæri til þess að deila þekkingu minni og hafa áhrif í stærra samhengi.... Meira...