,,Ég sem markaðsafl“

Eftir nokkra umhugsun sé ég sífellt betur hlutverk einstaklingsins í markaðssetningu og sem markaðsafl. Í sumum tilfellum er aflið meðvituð gjörð eða athöfn en margt er líka ómeðvitað og ekki eins greinilegt og það meðvitaða.

Í starfi mínu hjá MSS hef ég tekist á við það verkefni að afla þátttakenda á námskeið og fá fólk til  þess að velja þann möguleika að koma í nám hjá okkur. Þá er ég oft að vinna að því í raun og veru að fólk taki ákvörðun um að hefja nám og skuldbinda sig að verkefninu í ákveðinn tíma, oft með fyrirframgefin markmið í huga. Það sem ég reyni að ná fram er því mun meira en bara það að viðkomandi skrái sig á tiltekið námskeið. Markmiðið eða verkefnið er miklu fremur það að fá fólk til þess að líta á nám sem raunhæfan, spennandi og gefandi möguleika eða tækifæri. Það eru skilaboðin sem ég vil koma á framfæri.

Til þess hef ég notað ýmis verkfæri en hingað til hefur tilvera mín í einhverju sem heitir markaðssetning aðallega snúið að því að útbúa auglýsingar, veggspjöld, pósta á samfélagsmiðlum og vinna stutt myndbönd til þess að kynna ákveðnar námsleiðir. Þegar ég hugsa hlutverkið mitt í víðara samhengi er ljóst að það eru margir ,,faldir“ þættir sem ég sinni beint og óbeint. Þar koma til sögunnar viðhorf mín, reynsla, framkoma og vinnubrögð.

Mér finnst mjög athyglisverð pæling að markaðssetning sé jafn víðtæk og raun ber vitni og að ég er ekki bara ,,markaðsafl“ út á við til þess að fá inn þátttakendur eða þegar ég set saman texta í auglýsingu heldur ekki síður innan fyrirtækisins gagnvart samstarfsfélögum mínum og núverandi nemendum. Þá beiti ég aflinu inn á við, til þess að koma hugmyndum mínum á framfæri, fá fyrir þeim hljómgrunn og til þess að hvetja aðra í átt að sameiginlegu markmiði okkar.  Einkar athyglisvert finnst mér að færa þessar hugmyndir inn á heimilið og í hjónabandið með það að leiðarljósi að gera samskipti skýrari og betri en ekki þó (endilega) til þess að fá alla til þess að gera eins og ég vil.

Í raun er hægt að greina markaðshlutverk hvers  einstaklings í þaula og í daglega lífinu er hver manneskja virkt markaðsafl hvort sem hún gerir sér grein fyrir því eða ekki. Með þvi að átta sig  á þessu hlutverki getur aflið orðið kraftur sem nýtist í átt að markmiðum. Sömuleiðis veitir meðvitund um hlutverkið tækifæri til þess að stjórna því eða hafa áhrif á birtingarmynd þess.

Skildu eftir svar