6 – Samskiptaleiðir

Wiki > Handbók > 6 - Samskiptaleiðir

Markaðssamskipti

Hlutverk markaðssamskipta

Það er ekki nóg að búa til námskeið á réttu verði og á réttum stað, heldur þurfa fyrirtæki líka að koma skilaboðum um það á framfæri til mismunandi hópa í samfélaginu, til dæmis núverandi viðskiptavina, hugsanlegra viðskiptavina, birgja, annarra hagsmunaaðila og almennings.

Til þess að koma skilaboðum áleiðis til markhópsins getur kynning á áætlun og þjónustu verið jafn mikilvæg og hönnunarferlið. Í gegnum samskipti geta stofnanir kynnt starfsemi skólans fyrir væntanlegum viðskiptavinum. Menntastofnanir þurfa að huga að staðsetningu og tímasetningu til þess að gera þjónustuna eins þægilega og nothæfa og hægt er fyrir markhópinn. Menntastofnanir geta notað mismunandi leiðir til að bjóða neytendum upp á þjónustu. Miðlarnir geta verið persónulegir, þ.e. maður á mann, einstaklingur til hóps, símatengsl, upplifanir hjá einstaklingum eða póstsendingar. Eða ópersónulegir miðlar s.s. bæklingar, auglýsingar í fjölmiðlum, blöðum, vefmiðlum, heimasíðum fyrirtækja og stofnanna.

En eftir sem áður þarf að ná sambandi „þá“ sem eru þarna úti og það vekur spurningar, eins og: Hvernig er hægt að standa að kynningarstarfi fyrir mismunandi hópa í samfélaginu? Hvernig eru almannatengsl nýtt í markaðssetningu fræðslustofnana? Hvernig á að auglýsa eða velja sér miðla og hvernig nýta má vefinn sem vettvang?

Þegar við tölum um samskipti, eigum við ekki aðeins við samskipti milli stofnana og viðskiptavina, heldur einnig innri samskipti sem tilheyra stofnuninni eins og starfsfólkið, framleiðsluvaran og þjónustan. Samskiptastíll innan stofnana felur í sér þarfir, tækifæri og samskiptaáætlun sem eru afar mikilvægir þættir í þróun stofnanna. Innri samskipti beinast einnig að stjórnarmeðlimum, millistjórnendum, skrifstofufólki, sjálfboðaliðum og öllum þeim sem koma að stofnuninni. Síðan eru ytri samskipti sem beinast að markhópum, fjölmiðlum og mögulegum styrktaraðilum. Hér kemur að hlutverki ytri leiðbeinanda eða þjálfara, sem er að efla sterk tengsl við viðskiptavini og sýna hvernig vörur og þjónusta sem hann bjóða upp á, uppfyllir þarfir þeirra (Oberstein 2003).

Að mati sérfræðinga á þessu sviði eru samskipti við markhóp spurning um:

 • Upplýsingar:  Að upplýsa markhóp um valkost og vekja áhuga þeirra.
 • Afleiðingar:  Að segja þeim frá afleiðingum eða ávinningi þess að velja tiltekinn valkost eða námskeið.
 • Hvatningu:  Að hvetja til þátttöku á tilteknum tímapunkti og stað.
 • Umbun:  Að bjóða áframhaldandi þátttakenda einhvers konar afslætti.

Við undirbúning og dreifingu á markaðsáætlun þurfa menntastofnanir að hafa tvennt í huga. Er það í fyrsta lagi, eðli hvers námskeiðs og mikilvæg einkenni markhópsins sem hefur gagn af því að taka þátt. Í öðru lagi, miðlun efnis sem veitir þátttakendum hag í því að taka þátt. Menntastofnanir þurfa oft að glíma við ýmis konar ákvarðanir og áskoranir þegar kemur að markaðsfærslu. Dæmi um áskoranir eru:

 1. Hvað ætti markmið markaðsáætlunarinnar að vera?
 2. Ætti að koma á fót nýrri aðstöðu, eða annars konar miðlunarformi?
 3. Hvaða leiðir eru mögulegar til þess að kynna áætlunina á sem víðast?
 4. Á að koma á fót nýju útibúi og hvar ætti nýja aðstaðan þá vera staðsett?
 5. Hvernig getur fjarnám og ný tækni verið notuð?
 6. Hvernig notum við aðstöðu og umhverfi til þess að uppfylla mismunandi þarfir?
 7. Hvernig milliliði getum við notað?

Markaðssamskipti

Menntastofnanir nota ýmsar leiðir til að upplýsa, sannfæra og minna viðskiptavini beint eða óbeint á námskeiðin, sem þau bjóða. Þær leiðir eru:

Kynningarstarf

Kynningaráætlun er langtímamarkmið og ætti að gera a.m.k. eitt ár fram í tímann (Bogi Þór Siguroddsson, 2000). Kynningarstarf er spurning um tíma, fjármuni, staður og leiðir til að gera það. Helstu skref kynningaráætlunar eru eftirfarandi:

 1. Skilgreining markhópa:  Til hverra þurfum við að koma á framfæri skilaboðum? Hér koma einnig fram þarfir, einkenni og skoðanir markhópanna.
 2. Markmið skilaboða: Hér er átt við viðhorf, vitund og tilgang.
 3. Hönnun skilaboða: Skilaboðin þurfa að vekja áhuga og skapa löngun til þátttöku.
 4. Val markaðsleiða: Geta verið persónuleg eða ópersónuleg skilaboð.
 5. Fjárhagsáætlun: Fer eftir hversu mikið fjármagn fyrirtæki hefur til ráðstöfunar og aðferðum við markaðsfærslu.
 6. Samval markaðsleiða:  Hvaða leiðir á að nota, s.s.auglýsingar, almannatengsl o.s.frv.
 7. Árangursmat: Meta þarf árangur kynningastarfsins að því loknu.
 8. Stjórnun og samhæfing alls kynningastarfs, til þess að bæta ímynd stofnunarinnar (Friðriksson, K og Kristinsson, S.  2003).

Almannatengsl og opinber kynning

Ýmsar aðgerðir eru notaðar til að kynna fyrirtækið og ímynd þess. Til þess að þróa samskiptaáætlun þurfa menntastofnanir að setja sér markmið. Hægt er að raða markmiðum eftir því á hvaða stigi í ferlinu markhópurinn er; er hann á hugmyndastigi, forathugunarstigi, skipulagsstigi eða skilastigi? Síðan þurfa menntastofnanir að velja sér leiðir til þess að senda skilaboðin og til að hanna árangursrík skilaboð þarf að huga að stíl, tóni, orðalagi og formi. Hér koma einnig til áhrif fjölmiðla, sem geta verið jákvætt afl fyrir stofnanir til þess að ná markmiðum sínum. Almannatengslafulltrúar og stjórnendur þurfa að hafa þjálfun í að tala við fjölmiðla og bregðast við vandamálum, sem upp koma og þarf að útskýra. Trúverðugleiki er einn mikilvægasti eiginleiki almannatengslafulltrúa og stofnunarinnar allrar.

Auglýsingar og miðlar

Auglýsingar og umfjöllun birtast helst í fjölmiðlum. Auglýsingar geta verið beinar eða óbeinar. Beinar auglýsingar eru meira lifandi og fara oft fram í formi kynningar fyrir fólk sem íhugar þátttöku. Helstu atriði sem skipuleggjendur þurfa að hafa í huga með kynningar, eru: Að umræðuefnið veki áhuga, að flytjandi er góður, og þekki bæði fyrirtækið og þjónustuna, og að skipulagið er vel úr garði gert. Auglýsingar þurfa að miðla einhverju nýju og stuðla að breyttri hegðun hjá viðskiptavininum. Þær þurfa að byggja á markmiðum og stefnumarki stofnunarinnar. Viðbrögð, tíðni og svörun við auglýsingaherferðinni þarf að vera mælanleg (Kotler, 2008).

Bein og gagnvirk markaðssetning

Til að hafa samskipti við viðskiptavini og fá viðbrögð frá þeim eru til fleiri leiðir en auglýsingar. Má þar nefna póstdreifingu, bæklinga, myndbréf, tölvupóst, og vefsíðu. Ekki síður mikilvæg eru öll samskipti við fólk, hvort heldur er í munnlegu, skriflegu eða rafrænu formi.

Tengslanet (e. Business networking)

Tengslanet er í senn flókið og kraftmikið afl, sem einkennist af beinum og óbeinum tengslum. Þörf er fyrir að viðhalda mannlegum samskiptum og þróa þau, þar sem mannlegir eiginleikar mynda stóran kjarna innan fyrirtækja. Tengslanet er ferli sem krefst útsjónasemi af því aðstæður geta verið mismunandi og tengslanet getur myndað stöðugan grundvöll tengsla og stutt við endurtekin viðskipti. Öflugt tengslanet getur þar af leiðandi aukið árangur einstaklingsins sem og eflt fyrirtækið, umfram það sem einstaklingurinn hefur einn fram að færa, þar sem aðgangur að upplýsingum og tækifærum margfaldast. Mannleg samskipti eru meginundirstaða tengslaneta (Klerk og Kroon, 2008).

Klerk og Kroon (2008) telja að tengslanet geti bætt stjórnarferla og sambönd, og því veitt samkeppnisforskot. Við það er notaður mælikvarði sem byggist á því að fjöldi tengsla er mældur með meðaltali þess tíma sem sparaður er, sem auknar tekjur og áætlun gerð um virði tengslanetsins. Tengsl geta myndast hvort sem er innan fyrirtækja eða á milli fyrirtækja í gegnum einstaklingana. Útfærsla og blanda þessara tengsla geta því verið ólík frá samnýtingu á vörum, þjónustu og þess háttar, eða blanda af þessum þáttum. Það eru til margar útgáfur af tengslanetum, eins og vef-viðskiptanet (e. E-commerce), starfs- og félaganet, sem og upplýsinganet (Klerk og Kroon, 2008).

Skipulagt tengslanet (e. Strategic Business Networking) er mikilvægur þáttur í viðskiptum og að öllu jöfnu innihalda viðskiptanet sambönd eins einstaklings við marga („one to many“) og er því lýst sem sambandi þar sem eitt fyrirtæki setur reglur og staðla, sem önnur fyrirtæki þurfa að samþykkja eða hafna (Klerk og Kroon, 2008).

Skipulagt tengslanet getur falið í sér tengingu milli fyrirtækis og viðskiptavina þess, birgja, banka, stjórnvalda, fjölskyldna, endurskoðenda og annarra. Því þarf að byggja það upp og stjórna eins og annarri starfsemi fyrirtækja. Árangurinn af góðu tengslaneti liggur í því hvernig því er stjórnað á hverju stigi fyrir sig (Klerk og Kroon, 2008).

Markvisst tengslanet snýst um að fyrirtæki gera samkomulag um að deila með sér kröftum, kunnáttu og tækni til að skapa sameiginlega hagsmuni fyrir báða eða alla aðila. Tengslanetið þarf því að uppfylla þarfir allra aðila, til þess að það virki. Þetta form nær ekki aðeins til fyrirtækja á sama sviði heldur er það einnig þekkt meðal fyrirtækja innan atvinnugreina, sem mynda bandalög um mismunandi aðgerðir með virðiskeðjum (Klerk og Kroon, 2008).

Skipulagsheildir geta einnig valið bandalög sem valkost, þar sem þær deila með sér áhættu, hagnaði, ferlum og sameiginlegu yfirráðasvæði, t.d. þegar farið er inn á erlendan markað eða nýjungar kynntar. Að vera í bandalagi getur líka verið ókostur, vegna þess að sambandið gæti leitt til þess að skipulagsheildin missir af nýjum tækifærum. Breyting á tilhögun eða bandalaginu sjálfu kann að vera miklu flóknari en að koma á nýju bandalagi eða ná markmiðum sínum af sjálfsdáðum.  Þegar byggja á tengslanet, ætti að einblína á net sem styður við persónulegar eða faglegar þarfir og markmið (Klerk og Kroon, 2008).

Lögð er áhersla á að ekki eigi einungis að koma á ákveðnu tengslaneti til að viðhalda sterkum tengslum, heldur þurfi einnig að horfa á veik tengsl, því þau eru ekki síður mikilvæg fyrir skipulagsheildina. Öll tengsl, sterk eða veik, geta leitt af sér fjárhagslega hagsmuni og ávinning, vöru, þjónustu eða aukna þekkingu á tilteknu þáttum. Sterk tengsl eru líklegri til að gefa af sér fjárhagslegan ávinning, en veik tengsl eru líklegri til að veita aðgengi að fjölbreytileikanum (Klerk og Kroon, 2008).

Skipulagsheildum er stjórnað af fólki sem er sérstaklega valið til þess og tengslanet þarf að meðhöndla á sama hátt. Sérhvert fyrirtæki þarf sitt eigið tengslanet því ekkert fyrirtæki er eins og þess vegna þarf hvert þeirra sína sérstöku blöndu af tengslum. Árangurinn getur verið áþreifanlegur eða óefnislegur, fjárhagslegur, vitsmunalegur og tæknilegur, eftir því hverju verið er að leita eftir hverju sinni. Mannauðurinn sem tengslin mynda er alltaf hornsteinn tengslanetanna (Klerk og Kroon, 2008).

 Orðspor

Orðspor vísar til þess þegar fólk fer að deila upplýsingum milli sín í munnlegu, rafrænu eða í skriflegu formi, um reynslu og upplifun af tilteknu atburði, námskeiði eða þjónustu.

Boðleiðir innan markaðsleiða eru margar eins og fram hefur komið. Auglýsingar, bein markaðssetning, almannatengsl, persónuleg sölumennska, söluhvatar, viðburðir og upplifanir eru ólíkar leiðir að sama marki. Við val á þessum leiðum þurfa stofnanir að íhuga hvert markmiðið er hverju sinni og velja leið samkvæmt því, en hafa ber í huga að val á miðli hefur áhrif á viðhorf viðskiptavina.

Hvernig förum við að því að koma orðsporinu út í samfélagið á 21. öld? Hér koma samfélagsmiðlar enn og aftur við sögu. Það er í raun sú leið sem er skilvirkust þegar flestir neytendur eru nettengdir og meðlimir á flestum vinsælustu samfélagsmiðlunum. Um leið og einn „vinur“, svo fésbókartungutakið sé notað, byrjar að deila frá sér efni sem honum líkar, eru aðrir „vinir“ fljótir að fylgja eftir. Að deila mynd með persónulegum stuttum texta getur haft mun sterkari áhrif en heilsíðu auglýsing í Morgunblaðinu.

Hafa ber í huga að neytendur eru tilfinningaverur og að varan verður að höfða til þeirra á einhvern hátt einnig þarf að íhuga hvernig hægt er vekja tilfinningar fólks. Í flestum (mörgum) tilfellum gerist það þegar einhver hefur jákvæða sögu að segja. Það er því hagur fyrirtækisins að uppfylla væntingar og þarfir viðskiptavina. Því ánægður viðskiptavinur er besta auglýsingin.

Eftir þessa árþúsundalöngu þróunarsögu sem við erum afkomendur af, getum við enn treyst á hjarðhegðun mannsins (að honum finnist hann gera rétt), þegar við viljum fá hann til að láta að vilja okkar eða haga sér þannig að við (með markaðsfærsluna) fáum af því ávinning.

Samkvæmt Michell, Craven og DuHammel eru fjögur mikilvæg atriði sem gott er að hafa huga þegar fara á í og undirbúa markaðsherferð.

 • Þróa og viðhalda trúverðugleika.  Áhersla skal lögð á að þróa vel framsetta herferð sem byggir á gæðum, þar sem lögð er áhersla á virðingu og traust gagnvart föstum kúnnum, og síðan en ekki síst, nýjum líka. Það er ekkert launungarmál það þarf að sanna fyrir nýjum viðskiptavinum að virðið sem þeir fá fyrir ykkar námskeið er peninganna virði. Hlusta á fyrri þátttakendur um hvernig má breyta og bæta þau námskeið sem þegar hafa verið kennd (námskeiðsmat), ásamt því kanna hver þörfin gæti verið í framtíðinni. Hverju óska þátttakendurnir eftir og hvernig getum við uppfyllt þá ósk.
 • Þekkja keppinauta sína vel, hvað eru þeir að bjóða, hvernig er verðlagið hjá þeim, hverir eru þátttakendurnir hjá þeim, hvernig laða þeir að þessa þátttakendur. Síðan en ekki síst að geta nýtt sér þessar upplýsingar þá þegar á að uppfæra og endurhanna markaðsáætlun fyrir næsta skólaár. 
 • Gott er að geta fundið eða skapað markaðshillu  eða „niche“ útfrá einhverri sérhæfingu eða sérstöðu, þ.e. markhópurinn sækir ákveðið námskeið sem eingöngu er í boði hjá þér.

Samfélagsmiðlar

Hvernig á að nýta samfélagsmiðla? Það fyrsta sem þarf að gera er að skapa sérstöðu, hvað er það sem fyrirtækið/stofnunin stendur fyrir. Hver er markhópurinn sem ætlunin er að ná til?

Ef „þú“ veist ekki fyrir hvað „þú“ stendur, kemur „þú“ engu til skila.  Samfélagsmiðlar kalla eftir vörumerkjum, og fyrirtækið/stofnunin verður að vera tilbúin til þess að leggja allt sitt á  borðið.  Markaðssetningin felur því í sér að hafa samskipti við markhópinn „þinn“.

Hægt er að áætla að nú verði stórar og dýrar auglýsingaherferðir óþarfar. Það þarf ekki að leggja peninga í samfélagsmiðla beint, en það þarf að leggja til tíma og hugsun um hvað er verið að gera og hvernig samskiptum er háttað. Huga þarf að því, hver á að svara neytendum og hvernig á að taka á móti gagnrýni, því hvert og eitt fyrirtæki/stofnun þarf að gera sér grein fyrir að aldrei er hægt að gera svo að öllum líki. Nauðsynlegt er samt sem áður að vera með félagsmiðlaða-áætlun í rekstri.

Notkun á félagsmiðlum er nýtt verkfæri sem fyrirtæki hafa fengið upp í hendurnar. Enn er verið að kanna hvernig best er að nota þennan hluta í markaðssetningu. Betra er að hafa vaðið fyrir neðan sig, þegar byrjað er að nota facebook til markaðssetningar. Því er gott að ráðfæra sig við þá sem reyndari eru á þessu sviði til þess að mistök verði ekki dýr.

Facebook hefur sýnt fram á gildi sitt fyrir fyrirtæki/stofnanir og með því að nota þann félagsmiðill eru betri líkur á að ná til þess markhóps sem ætlunin er að ná í. Notendur Facebook vita að hverju þeir eru að leita, þeir eru fljótir að átta sig á því hvort þeim líkar sú vara, sem í boði er hjá tilteknu fyrirtæki/stofnun. Fyrirtæki sem nota Facebook hafa að því er virðist, áttað sig á því að myndir skila betri árangri heldur en textar. Því er það annað sem hafa þarf í huga, það eru ekki miklar líkur á því að neytandinn hafi þol í að lesa langa texta frá fyrirtækinu. En mynd sem gefur til kynna hver auglýsingin er, gefur betri raun.

Hver er þá hin eiginlega markaðsfræði hér, þegar hafa þarf í huga að neytandinn stjórnast af tilfinningum en ekki rökhugsun?  Því verður vörumerkið að vera mannlegt, því að lokum byggjast kaupin á tilfinningum og neytandinn verslar af þeim, sem honum líkar við.

Samfélagsmiðlar – Hagnýt ráð:

Samfélagsmiðlar eru nauðsynlegir í markaðssetningu, en þó ber að hafa í huga hvernig á að nota þá. Einn öflugasti miðilinn í dag er Facebook, en talið er að vel flestir íslendingar séu nú þegar meðlimir á þessum samskiptavef. En hvernig er hægt að ná til þeirra sem vefinn nota? Fyrirtækið Netráðgjöf hefur útbúið lista yfir hvernig eigi að bera sig að á facebókinni og listinn inniheldur 15 hagnýt ráð fyrir fyrirtæki til þess að markaðssetja sig, sem koma hér:

Markaðssetning á Facebook

1. prófílinn þinn á Facebook

Það fyrsta  sem þarf að gera til þess að koma sér á framfæri á Facebook er að búa sér til prófíl. Prófíllinn er notaður til þess að eiga samskipti við aðra Facebook notendur, en einnig til þess að auka sýnileika á netinu, sem og að styrkja ímynd fyrirtækisins.

Nafnið þitt: það er mjög mikilvægt að nafnið sem notað er á Facebook er ákveðið nafn vörumerkis. Síðar þegar samskipti eiga sér stað þá fer ekki á milli mála hvaða fyrirtæki er í umræðunni. Ef tiltekið fyrirtæki er með fleiri en eina staðsetningu, jafnvel í öllum landshlutum er mikilvægt að prófílinn standi fyrir fyrirtækið í heild sinni. Einstaka útibú geta síðan verið með aðdáendasíðu til þess að hafa bein samskipti við sína viðskiptavini og aðdáendur.

Prófílmyndin: Hafa þarf í huga að fyrstu kynni eru mikilvæg og því mikilvægt er að síða ávalt sínar bestu hliðar. Því ber að hugsa vel um þá mynd sem valin er og að hún höfði til sem flestra. Mynd sem höfðar til margra eykur mögulega sölu og er því vænlegri kostur en ella.

Nýir aðdáendur / fylgjendur:  Eftir að prófílinn er tilbúinn á ekki að bíða eftir að hlutirnir gerist sjálfvirkt, því við verðum sjálf að fylgja þessu eftir. Nú er mál að hafa samband við starfsfólk, vini og aðra sem við þekkjum til þess að gerast aðdáendur og fá það fólk til þess að deila á sínum vegg. Og nú ber að nota allar þá leiðir sem í boði eru til þess að kynna nýstofnaða síðu.

Veggurinn (The Wall):  Veggurinn þinn er það svæði sem þú notar mest til þess að eiga samskipti við fylgjendur þína, því er mjög mikilvæg að setja reglulega á hann skilaboð og taka þátt í þeirri umræðu sem birtist á honum og nota sér snjóboltaáhrifin sem geta myndast. Þó ber að hafa í huga að ofnota ekki vegginn með endalausum uppfærslum og samskiptum, því það getur haft öfug áhrif og fylgjendum fækkað fljótt.

Myndir og myndbönd:  Myndir geta sagt meira en mörg orð og myndband getur haft mun meiri áhrif. Góð mynd grípur augað mun hraðar en texti og margir notendur facebook skoða myndauppfærslur sérstaklega. Með því að nota myndir á réttan hátt eru auknar líkur á að styrkja ímynd þeirra vöru sem við erum að markaðssetja. Hér ber að nota hugmyndaflugið og veita því athygli hvað það er sem þínir viðskiptavinir vilja sjá.

2. Aðdáendasíður – Fan Pages

Aðdáendasíður eru ætlaðar fyrir fyrirtæki, vörumerki, verslanir sem og fræga einstaklinga. Hér opnast enn eitt tækifærið til þess að koma sér eða sinni vöru á framfæri. Sá kostur sem einna helst er fyrir slíka síðu er að þær eru opnar öllum á internetinu en ekki einskorðað við notendur Facebook.

Aðdáendasíða er skylda – ef ætlunin er að vera með í Facebook samfélaginu og nýta þann samskiptamiðill þá er nauðsynlegt að setja upp slíka síðu og hvetja síðan notendur og vini til þess að líka við síðuna og vera aðdáendur. Aðdáendasíður er besti vettvangurinn til þess að deila upplýsingum, myndum, myndböndum og koma að stað umræðu sem og að fræða fólk.

Aðdáendasíður – sem rétt áhersla til þess að hámarka árangur er æskilegt að vera með réttar áherslur, hver er markhópurinn og hvað er verið að auglýsa? Ef verið er að auglýsa námskeið þá er gott að flokka þau, fyrir hvern markhóp fyrir sig. Ekkert námskeið höfðar til allra og ber að hafa slíkt í huga. Hafa skýra mynd af þeim hópi sem ætlunin er að ná til hverju sinni, þó er gott að vekja forvitni allra, því maður þekkir jú mann.

3. Hópar – Groups

Facebook-hópar gefa fólki tækifæri til þess að deila upplýsingum og umræðum um sameiginlegt áhugamál, málstað og þess háttar. Að stofna hóp getur því verið góð leið til þess að skapa samfélagslegar umræður um þá vöru sem ætlunin er að koma á framfæri.

Bein skilaboð til margra:  Einn stærsti kosturinn við að stofna hóp er, að þú verður stjórnandi hans. Þar opnast því leið til þess að ná til hópsins í heild sinni og í hópnum er hægt að senda til að myndskilaboð til allra meðlima í einu, en slíkt er ekki hægt í gegnum prófíl né aðdáendasíðu. Margir í einu er annar kostur við að stofna hóp, þá er hægt að bjóða mörgum að ganga í hópinn á sama tíma. Einnig virka hópar mjög vel þegar þarf að koma skilaboðum áfram á stuttum tíma og skapa umræður hratt.

4. Viðburðir – Events

Facebook viðburðir geta spilað lykilhlutverk til þess að mynda tengsl við markhópinn þinn, jafnvel við notendur sem eru ekki á vinalista þínum eða aðdáendur. Annar kostur er sá að hægt er að stofna til viðburðar, án þess að tengja það við prófílinn þinn eða aðdáendasíðu.

Opnir og lokaðir viðburðir – Eftir að viðburður hefur verið stofnaður, er enn eitt sem hægt er að velja í stillingum á síðunni, en það er hvort viðburðurinn eigi að vera opinn eða lokaður. Ef verið er að bjóða t.a.m. fólki að koma á kynningu á tilteknu fræðslustarfi, er gott að vera með opinn viðburð, þar með gefst öllum kostur á því að sjá hvað er um að vera eða taka þátt. Svo er að hafa atburðinn lokaðan ef einungis er verið að bjóða tilteknum einstaklingum til hans.

5. Einstakt verðmæti og ferskar uppfærslur

Ferskar uppfærslur er nokkuð sem hafa þarf í huga því að Facebook-síða sem er sjaldan uppfærð er ekki spennandi og því hættir fólk fljótt að heimsækja hana.

Skemmtanagildi er það sem best er að hafa í huga, hafðu prófílinn skemmtilegan og persónulegan. Ef sá möguleiki er fyrir hendi, láttu þá búa til apps eða leiki sem eru einungis fyrir þína síðu.

Ferskleiki og frumleiki er það sem heldur síðunni þinni uppi. Það er ekki nóg að uppfæra prófílinn og aðdáendasíðuna reglulega ef innihaldið er ekki spennandi. Nú er lag að setja sig í spor viðskiptavina þinna og finna út hvað það er sem þau vilja sjá á þinni síðu. Hvað er það sem fær viðskiptavininn til þess að heimsækja þinn prófíl frekar en einhvern annan?

Sýndu fram á verðmæti því þeir sem bestum árangri ná á Facebook eru að deila frá sér verðmætu efni og gefa af sér. Hvaða upplýsingum býrð þú yfir sem viðskiptavinir þínir geta nýtt sér og grætt á? Það er efnið sem þér ber að deila! Ef sá möguleiki er fyrir hendi að þú getir gefið ráð, leyst úr vanda eða veitt upplýsingar sem aðrir búa ekki yfir ertu komin með yfirhöndina gagnvart samkeppnisaðilanum.

6. Myndir

Með því að nota stórar myndir í prófíl þá tekst þér betur að stimpla þig inn í huga fólks. Stærðin skiptir máli og á Facebook er hægt að nota mynd sem er 200 punkta há x 600 punkta breið, og þegar þú nýtir þér stærðina þá stendur þú upp úr fjöldanum.

7. Merktu vini á myndum – Tagging

Þú getur merkt vini á myndir, þó svo að myndin sé ætluð fyrir nýtt námskeið, fyrirlestur eða annað sem tilheyrir fræðslunni. Einnig getur þú beðið vini að merkja sig sjálfa á myndirnar. Með því að gera það birtist umrædd mynd á síðu þess sem merktur er og þá aukast líkurnar enn frekar á að fleiri, en þeir sem eru tengdir þínum prófíl, sjái það sem er í boði.

Ekki finna upp hjólið – það er algjör óþarfi að eyða dýrmætum tíma í það að velta því fyrir sér hvernig eigi að gera hlutina, nú þegar eru mörg fyrirtæki á Facebook, sjáðu hvernig þau fara að og líktu eftir því.

8. Sérhannaðar lendingarsíður fyrir notendur

Notaðu mismunandi síður til þess að ná til ólíkra markhópa. Hér að ofan var rætt um hve mikilvægt það væri að hver síða höfðaði til ákveðins markhóps. Það er hægt að taka þetta skrefinu lengra og vera með sérhannaðar lendingarsíður, sem hvetur notendur til þess að „líka við“ síðuna. Þetta er gjarnan gert með leikjum/applications eða sniðugum síðum sem gefa notendum vísbendingu um að smella á „líkar við“ eða það sem farið er að kalla „læk“ á íslensku.

9. Verðlaun fyrir dygga aðdáendur

Til að hvetja viðskiptavini þína og aðra til þess að koma í aðdáendaklúbbinn þinn er hægt að gera með ýmsum hætti á Facebook. Ein leið er að vera með ýmis konar keppni, svo sem að sá sem deilir síðunni oftast með öðrum fær verðlaun. Verðlaunin geta verið margvísleg, til dæmis gætir þú gefið einum heppnum aðdáenda gjafabréf á næsta námskeið sem hann hefur áhuga á að sækja. Allir slíkir leikir eru vinsælir á Facebook og eru mjög góð kynning.

10. Notaðu keppnir og kannanir

Að halda keppnir hvetur aðdáendur þína til þess að eiga gagnvirk samskipti við þig, og það sama gildir um kannanir. Skemmtileg og vel útfærð könnun er ekki einungis góð leið til þess að virkja aðdáendur, heldur getur könnun veitt góða innsýn í hvað þeir vilja. Svo lengi sem þú færð aðdáendur þína til þess að eiga samskipti, birta myndir og taka þátt, ertu að gera góða hluti.

11. Kostaðar auglýsingar á Facebook

Hér er hægt að setja í annan gír. Með því að nýta þér kostaðar auglýsingar á Facebook, þá færðu aðgang að þorra Íslendinga og þar er nú nálgast markhópinn á lýðfræðilegan hátt.

12. Taktu virkan þátt utan eigin síðu

Það getur verið mjög gott að finna aðrar Facebook síður í sama geira og þú ert, og taka þátt í umræðum þar. Þetta er góð leið til þess að taka virkan þátt á netinu og með þessu eykst sýnileiki fyrirtækisins óbeint. Með því að veita góð ráð og gefa af sér í umræðum er einnig verið að auka traust annarra notenda á þér eða fyrirtækinu og þá aukast jafnvel líkurnar á því að aðrir notendur gerist aðdáendur á þinni Facebook síðu.

13. Nýttu þér tæknina til að benda á Facebook af vef þínum og víðar

Það eru enn fleiri leiðir til þess að auka sýnileika þinn á Facebook. Ef þú ert með blogg þá er sá möguleiki í boði að gera fólki kleift að deila fréttum þaðan inn á Facebook.

Ummæli af bloggi yfir á Facebook – Það getur verið góð hugmynd að tengja bloggið þitt við Facebook með Facebook Connect Plugin. Það gerir notendum kleift að setja ummæli við síðuna þína og þau birtast samstundis á þeirra eigin vegg, og verða því sýnileg öllum þeirra vinum. Með þessu eykst sýnileiki þinn töluvert við hver ummæli sem koma á síðuna.

14. Facebook utan internets

Það er ærin ástæða til þess að kynna Facebook síðuna þína víðar en á internetinu. Það er góð hugmynd að minnast á hana í öðrum auglýsingum á vegum stofnunarinnar og hvetja fólk þannig til að finna ykkur á Facebook.

15. Það eru ekki bara unglingar á Facebook

Það er algengur misskilningur að það séu fyrst og fremst unglingar sem hanga á Facebook. Til að mynda eru nær allir á aldrinum 20-29 ára íslendingar skráðir á Facebook og er mesta aukningin hjá aldurshópnum sem er 50 ára og eldri. Því er staðreyndin sú að hægt er að finna nánast alla markhópa sem við viljum í gegnum þennan miðil.  Stofnunin eða fyrirtækið þarf alltaf að hafa í huga hverjir viðskipavinirnir eru og haga samskiptum í samræmi við það. Ef þú gætir þess að það efni sem þú setur á síðuna þína henti þínum aðdáendum, er nánast öruggt að þú tryggir þér fastan sess á Facebook og eignast þúsundir aðdáenda.

Heimildir

Bogi Þór Siguroddson. (2000). Sigur í samkeppni. Reykjavík: Bókaklúbbur atvinnulífsins, Heimsljós.

Epstein, K. (2006). Marketing made easy. Wisconsin: Entrepeneur Press.

Friðriksson, K & Sævar Kristinsson, S. (2003). Impra nýsköpunarmiðstöð – iðntæknistofnun. (B. Hallgrímsdóttir, Ritstj.) Sótt 5. 10 2010 frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands: http://www.nmi.is/files/%7B84DC79BA-D0DF-408B-8879-5B36289080A5%7D_impra_markadsaaetlanir.pdf

Klerk, S. De. og Kroon, J. (2008). Business networking relationships for business success Rafræn útgáfa. South African Journal of Business Management, 39 (2), 25 – 35.

Kotler, P. og Fox, K.. (1995). Strategic Marketing For Educational Institutions (2. útgáfa). New Jersey: Prentice-Hall, Inc.

Kotler, P. og Andreasen, A. (2008). Straegic Marketing for Nonprofit Organizations (7. útgáfa). Upper Saddle River, New Jersey. Pearson Education, Inc.

Netráðgjöf.  Sótt á vefinn: http://www.netradgjof.is/2011/08/markadssetning-a-facebook/

Oberstein, S. og Alleman, J. (2003). Beyond Free Coffee & Donuts: Marketing Training and Development. United States of America: Alexandria, ASTD.

 

Tags: