Vangaveltur um hugmyndir

Með þessum skrifum mínum er ég að velta fyrir mér ýmsum hliðum hugmynda og úrvinnslu þeirra. Flestallt sem við neytum og njótum byrjar sem hugmynd, hver vara byrjaði einhvern tímann sem hugmynd sem síðan varð að veruleika eftir ákveðið sköpunar- og þróunarferli. Hugmyndir eru misgóðar og margir fá vafalaust sömu hugmynd á sama tíma, en munurinn á úrvinnsla þeirra getur verið mjög mismunandi og ráðið úrslitum um velgengni og líftíma hugmyndarinnar. Það er oft sagt að það kosti pening að eignast pening og held ég að í því felist mikill sannleikur. Þegar hugmynd er færð yfir í veruleika þarf að hafa átt sér stað langt og ítarlegt ferli þar sem allar hliðar markaðarins, kostnaðar, hagnaðarvonar, framleiðslugetu, mögulegrar samkeppni og nýnæmi eru skoðaðar ásamt fleiri þáttum. Slíkt ferli kostar mikla peninga, mikinn tíma og heilmikið úthald. Það er lykilatriði að hafa trú á hugmyndinni og því að hugmyndin geti orðið verðmætaskapandi.

            Á auglýsingastofum um allan heim starfar fólk sem fær greitt fyrir hugmyndir og að kynna þær fyrir viðskiptavinum og loks útfæra þær til birtingar hvort sem um er að ræða prentmiðla, sjónvarp eða netmiðla. Það færist sífellt í vöxt að fyrirtæki og stofnanir auglýsi á netmiðlum og þá sérstaklega á samfélagsmiðlum til að ná til fólks því þú vilt vera þar sem fólkið er. Ég velti því fyrir mér í kjölfar frétta af nýkynntu regnhlífafélaginu META sem er í eigu Mark Zuckerberg hvert markaðurinn mun stefna. Hinu nýja félagi er ætlað að þróa og setja á markað sýndarveruleika sem á að skapa ný tækifæri og nýja markaði í upplifun og markaðssetningu efnis, þjónustu og afþreygingar. Komið hefur fram að þessi tækni þurfi allmörg ár til viðbótar í þróun áður en hægt er að setja hana á markað og margir spurja sig að því hvað veldur tímasetningunni á kynningunni og hvort hún hafi verið tímabær. META er kynnt á sama tíma og miklar og gagnrýnar umræður um fyrirtækið Facebook eru í loftinuog er jafnvel talið að um PR brellu sé að ræða til að færa athyglina af neikvæðum þáttum samfélagsmiðlanna.

            Okkar kynslóð verður senn eftirbátar komandi kynslóða í tækni og ferlum, en spurningin er hvert erum við að stefna og er sú stefna siðferðislega rétt? Þeirri spurningu verður nú ekki svo glatt svarað í þessum stutta pistli mínum, en það er nauðsynlegt að velta þessu fyrir sér því framtíðin er ekki endilega óskrifað blað. Framtíðin verður til sem afrakstur þess sem á undan er. Eitt leiðir af öðru og ein hugmynd setur af stað keðju hugmynda sem eins og áður segir geta verið misgóðar og farsælar fyrir mannkynið. En ef hugmyndir eru aðgengilegar öllum því hugmyndir kosta ekkert heldur einungis útfærsla þeirra er þá ekki alltaf einhver annar sem fær sömu hugmynd og þú tilbúinn til að framkvæma hana?

            Öll fáum við hugmyndir og sum okkar fáum margar hugmyndir á dag og erum jafnvel í vandræðum með þær. Hvað á að gera við allar þessar hugmyndir? Verðum við að prófa þær allar og framkvæma eða er stundum bara best að bíða eftir því að einhver annar grípi hugmyndina sem vafalaust er þarna flögrandi í hugum margra?

            Hvenær á maður hugmynd og hvenær ekki? Getur maður einn átt hugmynd og ef svo, er þá ekki siðferðisleg skylda manns að deila henni með öðrum ef hugmyndin er góð og ef hún getur gagnast öðrum eða haft mögulega lífsbætandi áhrif á aðra?

Skildu eftir svar