Nostalgía

Flestöll þekkjum við það að upplifa nostalgíu. Nostalgía tengist yfirleitt gömlum minningum, tilfinningu og upplifunum. Samkvæmt Vísindavefnum er skilgreiningin á nostalgíu eftirfarandi:

Orðið nostalgía er aðkomuorð í íslensku annað hvort úr dönsku nostalgi eða ensku nostalgia og er oft notað í óformlegu máli. Það merkir ‘söknuður eftir liðinni tíð’, til dæmis ,,Hann hugsaði með nostalgíu til menntaskólaáranna”. Orðið getur einnig merkt ‘heimþrá’, til dæmis ,,Íslenski stúdentinn í Kaupmannahöfn hugsaði með nostalgíu til íslensku fjallanna.”

Talið er að svissneskur læknir hafi fyrstur búið til orðið nostalgia í nýaldarlatínu árið 1688 sem þýðingu á þýska orðinu Heimweh ‘heimþrá’. Það er sett saman úr tveimur grískum orðum nóstos ‘heimferð’ og afleiðslu af orðinu álgos ‘sársauki’.

(Vísindavefurinn, 2007).

Sumir upplifa nostalgíu tilfinningu við það eitt að finna lykt eða heyra hljóð sem kallar fram hugrenningatengsl og minnir á tíma eða stað í lífi þess sem þetta upplifir. Ég hef margoft upplifað nostalgíu tilfinningu og tengi það oft við ákveðna tónlist, lykt eða jafnvel mynd af gömlum hlut úr æsku. Einnig finnst mér merkilegt hvað gamlar auglýsingar úr æsku geta kallað fram þessa nostalgíu tilfinningu og þá burtséð hvort varan í auglýsingunni hefur einhverja merkingu í daglegu lífi. Ég get notað eigin dæmi um slíkar auglýsingar sem ég man vel eftir úr æsku eins og auglýsingin frá Bílasölu Guðfinns Bílasala Guðfinns, Ora baunir Ora Baunir og Heinz tómatsósa.

            Nú til dags er ágangur auglýsinga hvert sem litið er gífurlegur og þá skiptir engu hvort þú situr heima hjá þér og lest í gegnum Morgunblaðið á netinu eða kveikir á sjónvarpinu. Auglýsingar eru alltumlykjandi og smíga inn í hugskot okkar óboðnar.

            Auglýsingastofur nota oft þessi þekktu hugrenningartengsl í markaðsetningu og framsetningu efnis fyrir viðskiptavini sína til að kalla fram notalega og kunnuglega tilfinningu hjá neytandanum. Ef vel heppnast þá ertu líklegur til að selja meira af því sem þú ert að auglýsa.

            Fyrirtækið Crayola, stofnað árið 1885 sem framleitt hefur vaxliti fyrir heimili og skóla ákvað að spila inn á nostalgíu tilfinninguna við eigin vörur í kjölfarið á mikilli og breyttri stafrænni þróun í leik barna. Svar Crayola við þessu var að markaðssetja sig sem fyrirtæki sköpunar (e. champions of creativity) og tengja neytendur aftur við tilfinningaleg hugrenningartengsl og æskuminningar þar sem vaxlitirnir frægu koma við sögu.

(Fahy og Jobber, 2019, bls.133).

            Auglýsingar munu líklega um ókomna tíð snúast um að selja tilfinningar og kveikja hugrenningartengsl hjá neytandanum. Hver þekkir ekki slagorðið „Alveg einstök tilfinning“ og fær mynd í hugann af vörunni sjálfri og hamingjusamri manneskju á strönd að svala þorsta sínum? Í þessu tilviki með drykknum Coca Cola. Vel heppnuð auglýsing nær að grípa neytandann með einni setningu, einni skírskotun og eða einni tilfinningu.

Hvað hugsar þú þegar þú sérð 5 8 8 5 5 2 2 ? Eflaust hugsar þú um lagið í auglýsingunni og ert þegar byrjuð/aður að söngla lagið í huganum. Einföld og skýr auglýsing sem nær ennþá árangri þótt hún sé fyrir löngu komin úr birtingu.

Heimildir

Fahy, John og Jobber, David (2019). Foundations of Marketing. McGraw-Hill Education.

Vísindavefurinn, 2007. Sótt þann 28. október af slóðinni:     https://www.visindavefur.is/svar.php?id=6620

2 thoughts on “Nostalgía”

  1. Ég er einmitt nýlega búin að finna fyrir svona auglýsinga-nostalgíu. „Við viljum Vilkó!“. Ég er að spá hvort ég ætti ekki að kaupa mér eina Vilkó-súpu fljótlega og prófa að elda hana. Ég er reyndar ekki viss hvort þær fáist enn og ég er smá hrædd við að eyðileggja minninguna ef súpan er ekki eins góð og í minningunni 🙂

  2. Nostalgía er rosalega sterk 🙂
    Bara gleðin sem vaknar þegar maður heyrir lag sem manni fannst æðislegt sem ungling 🙂
    Eitt er samt skemmtilegt sem ég upplifði varðandi nostalgíu, það var ein af uppáhaldsmyndunum mínum (The Pest). Mér fannst hún æði þegar ég horfði á hana sem unglingur en svo ákvað ég að horfa á hana aftur og úpps! Hún var hræðileg hehe, ég komst ekki í gegnum fyrsta hlutan af henni.

Skildu eftir svar