Content Marketing eða efnismarkaðssetning snýst um það að búa til efni og miðla til fólks. Efnið verður að vera innihaldsríkt og hafa eitthvert virði fyrir fólk. Með efnismarkaðssetningu getum við komið á framfæri því sem við stöndum fyrir. Það er hægt að gera með því að veita upplýsingar, bjóða upp á ókeypis ráðgjöf, setja fram gagnlegar hugmyndir, pistla eða annað fræðandi efni. Þetta snýst um að gefa af sér og sýna fólki að við erum sérfræðingar á okkar sviði. Það skilar sér í því að fólk leitar svo til okkar þegar það þarf á okkar sérþekkingu að halda.
Efnismarkaðssetning einblínir á það að við séum til staðar fyrir fólk þegar það þarf á upplýsingum að halda. Það er ekki verið að þröngva upplýsingum til fólks heldur er verið að bjóða upp á upplýsingar og fróðleik sem getur nýst fólki þegar það þarf á því að halda. Það efni sem við setjum frá okkur verður að vera vandað og áhugavert og þess virði að fólk vilji nota tímann sinn í að skoða það. Með þessu erum við að draga fólk til okkar en það hefur val um að skoða það sem við erum að bjóða upp á.
Efnismarkaðssetning hefur breytt markaðsstarfi að því leiti að nú er ekki málið að þröngva upplýsingum eða tilboðum til fólks heldur að vera til staðar með nytsamlegar upplýsingar þegar fólk þarf á því að halda. Efnismarkaðssetning er þar af leiðandi ekki Outbound marketning (ýta hlutunum upp á fólk) heldur Inbound marketing (draga fólk til okkar). Þetta snýst ekki um að ná í fólk heldur vera á réttum stað þegar fólk fer að leita að því sem við höfum upp á að bjóða.
Til þess að efnismarkaðssetning virki þurfum við að vera búin að vinna grunnvinnuna. Við þurfum að þekkja markhópinn okkar og vita hvað hann hefur áhuga á og hvernig best er að ná til hans. Það er mikilvægt því við þurfum að tala um það sem höfðar til markhópsins okkar. Einnig verðum við að vera með skýrar hugmyndir um hvað það er sem við erum að bjóða uppá. Hvert er okkar „brand“?
Efnismarkaðssetning felur í sér að við þurfum að gefa af okkur. Það þarf samt að passa að finna jafnvægið milli þess að gefa fólki það sem það vill og að efnið sem við setjum frá okkur leiði til viðskipta fyrir okkur. Efnismarkaðssetning krefst bæði tíma og vinnu, en ekki mikilla fjármuna. Þannig getur það verið öflugt markaðstól fyrir minni fyrirtæki eða fyrirtæki sem eru að hefja starfsemi.
Unnið úr bloggi Þórönnu, Markaðsmál á mannamáli. http://www.mam.is/efnismarkadssetning.html