Copyblogger: Að varpa ljósi á kosti vöru/þjónustu með andstæðusögum (e. contrast storytelling)

Mér finnst ótrúlega spennandi hvernig ýmsar hugmyndir berast mér úr ýmsum áttum. Ein aðalaðferðin í „foreldrafræðslunáminu“ (foreldrafræðsla og uppeldisráðgjöf) er að stilla saman andstæðum (e. contrasts) með foreldrum, skoða ólíkar úrklippur úr kvikmyndum, myndböndum o.s.frv. – skoða þær, ræða þær og nýta andstæðurnar í svokallaðar „ígrundaðar gagnræður“ (e. reflective dialogue).

Á „Copyblogger“ er færsla frá 11. september, þar sem Brian Clark, sem fjallar um hvernig best er að auka virði vöru/þjónustu sem við viljum selja …  (e. supercharge your benefits)  og leggur til að það verði gert með því að segja andsögur (e. contrast storytelling). Nú er ég forvitin að fræðast enn meira um þetta andstæðufyrirbæri. Ég spurði Susan Walker kennara í foreldrafræðsunni frá University of Minnesota þegar hún var að kenna okkur í maí sl. hvaðan þessi hugmynd kæmi um að stilla saman andstæðunum með þessum hætti – þá sagði hún að sennilega mætti rekja þetta til Habermas. Ef til vill vita Hróbjartur eða Magnús eitthvað meira um þetta fyrirbæri

Markaðssetning snýst um að selja að sögn Brian Clark og því verður bloggið að snúast um að segja frá því hvaða ávinningur er af því að kaupa það sem ég vil selja. Spurningin er í hvaða umbúðir er best að setja kosti vörunnar/þjónustunnar fram?  Brian Clark talar um umbúðaáhrif (e. framing effect) og segir að um sálfræðileg viðbrögð sé að ræða þar sem fólk bregst við tilteknum valmöguleikum á ólíkan hátt allt eftir því hvernig varan/þjónustan er kynnt.

Manneskjan hefur tilhneigingu til að vilja forðast sársauka meira en að meta kostina við vöruna/þjónustuna. Það að segja andsögu þar sem kemur fram sársaukinn við að missa af einhverju … er því áhrifameiri. Þannig er viðskiptavinurinn minntur á það sem hann/hún vill forðast … áður en rætt er um það hvað hann/hún mun fá í staðinn.

Það getur oft verið erfitt að velja vöru/þjónustu þegar valkostirnir eru margir – þá eru andstæðurnar svo margar. Þá gerist það sjálfkrafa að við útilokum einhverja valmöguleika til að fækka þeim og veljum síðan úr þeim fáu sem eftir eru. Clark fullyrðir að við veljum besta/bestu kostina þegar við stöndum frammi fyrir tveimur mjög andstæðum valmöguleikum, af því að við eigum auðveldar með það sálfræðilega að vinna úr „mismuni“ (e. difference) milli hluta frekar en að meta kosti þeirra.

Þannig felst mikil orka í því að stefna andstæðum valmöguleikum/pörum saman. Slíkt varpar skýrara ljósi á hinn raunverulega mun vörunnar/þjónustunnar – og leiðir þessi nálgun til mun meiri sölu á vörunni/þjónustunni.

Mér finnst afar áhugavert að skoða þetta fyrirbæri í tengslum við „sölu“ á foreldrafræðslunámskeiðum og öðrum námskeiðum á sviði mennta- og uppeldismála.

Skildu eftir svar