Óþægindi og gæði í fræðslutilboðum fyrir fullorðna?

þægindarammi

Í tengslum við markaðssetningu fræðslutilboða fyrir fullorðna þróast virði og staðfæring vörunnar meðal annars út frá innihaldi og uppsetningu. Með þarfagreiningu og rannsóknum á eftirspurn eftir ákveðnum námsþáttum held ég að hægt sé að setja upp nokkuð góða hæfnisáætlun fyrir fræðslutilboð. Hvað á að kenna, er í mínum huga einfaldara að finna út heldur en hvernig við eigum að gera það. Við lifum í síbreytilegu samfélagi þar sem lífsgæði og þægindi skapa sífellt stærri sess auk þess sem rannsóknarfyrirbærið „fullorðinn námsmaður“ er ekki nema 50 ára gamalt. Hvernig eigum við miðla því efni sem við viljum koma til leiðar til fullorðnu námsmannanna?
Seth Godin skrifaði áhugavert erindi sem hann kallar Education needs to be inconvenient í september 2018 og birti á bloggsíðu sinni. Þar heldur hann því fram að fólk nú til dags vilji hafa það gott og njóta þæginda. Fólk velur auðveldu leiðina; notar fjarstýringar, verslar í bílalúgum og leggur fyrir samræmd próf til að sleppa við einstaklingsmiðun. En hann segir að þetta getum við ekki haft í huga við skipulagningu náms því menntun þurfi að vera óþægileg og byggja á áreynslu og ákveðinni vanlíðan til að færa okkur þaðan sem við vorum þangað sem við viljum vera.
Það er mikilvægt fyrir okkur að við höfum þetta í huga. Við þurfum að sjálfsögðu að hafa námið okkar aðgengilegt og áhugavert. En til þess að það skilji eitthvað eftir sig þurfa að eiga sér stað ákveðin átök innra með námsmönnunum. Við ætlum að bæta við þekkingu það verður að eiga sér stað umbreyting í hugum nemenda okkar og til þess að svo megi verða þurfa þeir að fara út fyrir þennan svo kallaða þægindaramma. Það þarf einhver ígrundun hugmynda að eiga sér stað.
Þetta verðum við að hafa í huga til þess að tryggja gæði á innihaldi fræðslutilboða okkar sem aftur auka virði þeirra og styðja við staðfæringuna í huga viðskiptavina okkar. Námið þarf að valda ákveðnum óþægindum fyrir nemendur okkar. Þetta hljómar svo illa en kemur svo aftur heim og saman við fræðin um það hvernig fullorðnir námsmenn læra og það að fara út fyrir þægindaramman til þess að öðlast nýja reynslu, vaxa, menntast og verða „meiri maður“.
Mitt innlegg að þessu sinni er því „höfum í huga að nám sé alltaf óþægilegt á þann hátt að það valdi ákveðinni áreynslu fyrir nemendur okkar“. Þannig munum við ná árangri.

Skildu eftir svar