Í upphafi námskeiðs er allt svo nýtt og spennandi og námsefni fyrstu vikunnar fékk mig virkilega til þess að hugsa. Ég hef lítið velt fyrir mér markaðsmálum þar til nýlega. Nú er ég að pæla í öllu því sem ég sé í kringum mig, auglýsingum í sjónvarpi, á samfélagsmiðlum, í útvarpi, í bæklingum og annars staðar. Ég er að velta fyrir mér virði vörumerkja og fyrirtækja. Ég hef ekki mikið velt fyrir mér sögu merkja og þeim hindrunum sem hafa orðið á vegi þeirra og hafa leitt þau á þann stað sem þau eru á í dag eða vinnunni sem liggur að baki merkis. Núna mun ég pæla meira í þessu, sérstaklega kjarnavirði fyrirtækja og vörumerkja, hver gildi þeirra eru og hvað þau gera til þess að framfylgja þeim. Hugsun mín er orðin gagnrýnni gagnvart auglýsingum og nú allt í einu sé ég hvað sumar auglýsingar eða slagorð eru frábær en önnur bara alls ekki.
Þegar maður lærir eitthvað nýtt og fer að skoða heiminn út frá nýjum sjónarhornum þá byrjar maður yfirleitt á að kíkja í eigin bakpoka. Mér fannst því áhugavert eftir lestur vikunnar að velta fyrir mér afhverju ég vel ákveðið merki framyfir annað. Jafnvel merki framyfir vöru. Er það tengt merkinu sjálfu eða er ég að fylgja straumnum? Fyrir nokkrum árum tók ég ákvörðun um að vera ekki að elta það sem næsti maður er að gera, bara gera það sem mig langar og það hefur bæði einfaldað lífið mitt og gert það skemmtilegra. Ég velti því fyrir mér hvernig ég get fylgt þessari ákvörðun minni þegar ég fer að markaðssetja mitt fyrirtæki.
Í augnablikinu er ég að vinna að námskeiðum fyrir fullorðna, bæði heilsutengd námskeið og foreldrafræðslu. Eins og fram kemur í námsefninu þá þarf varan að vera á einhvern hátt frábrugðin vörum annarra og því mikilvægt að hafa í huga; hvað gerir mína vöru betri en hjá hinum og hvers virði er söluvaran ,,ég“?
Þegar ég markaðsset námskeiðin mín þá þarf ég einmitt að huga að því að virði komi mjög skýrt fram, þ.e. hvað þátttakendur fá raunverulega út úr námskeiðinu. Þetta er einfalt, ef það er ekki skýrt þá veit fólk ekki hvað það fær út úr þátttökunni og sleppir því að skrá sig. Fókusinn minn fer því þangað, a.m.k. þangað til ég læri eitthvað nýtt innan markaðsfræðinnar sem þarfnast meiri athygli.
Þangað til næst,
Magnadóttir ™
Ég er svo sammála þér varðandi hvernig maður fer að sjá auglýsingar og markaðssetningu með öðrum augum. Bæði horfi ég á auglýsingar annarra með gagnrýnni hugsun, spái í þeim í víðara samhengi og kem auga á aðra hluti en áður og set núna endalaus spurningamerki við mína eigin markaðssetningu. Vonandi verður það til þess að ég geti unnið markvisst í virði námsins, boðið betri „vöru“ og náð athygli fleiri einstaklinga.
Annars held ég að ég þurfi að taka þig til fyrirmyndar og taka meðvitaða ákvörðun að vera ekki alltaf að fylgja öðru fólki og straumum hjarðarinnar. Mér finnst ég betur sjá það núna að ég læt allt of oft glepjast af góðri markaðssetningu 🙂
Góð lesning Hildur Inga. Mig langar að vita meira um fyrirtækið sem þú ert að tala um þ.e. markhóp, þarfir, virði osfrv.
Eitt það sem reynist okkur sérlega erfitt í lífinu, er að vera sá sem við erum! Ætli það verði ekki enn erfiðara þegar við ætlum á markað með það sem við höfum fram að færa. Við reynum þá e.t.v. að vera eins og einhver annar sem við höldum að gangi vel, eða við þorum ekki að skoða nákvæmlega hvað það ER sem við höfum fram að færa og að rækta það. Það er nefnilega enginn annar ÞÚ til og engin/n sem getur boðið nákvæmlega það sama og þú… Það er eitt sem ég kann svo vel að meta við Seth Godin og hans vinnu. Hann er að tala við fólkið sem hefur eitthvað fram að færa og vantar svo herslumuninn til að bjóða það fram 😉