Á ég að fara að selja mig?

Undanfarna daga hef ég verið á bólakafi í að setja mig almennilega og enn frekar inn í hugtakið „markaðssetning“. Án þess að hafa vitað af því, hef ég oft gert markaðsáætlanir og langbest hefði verið fyrir mig að nema þessi fræði fyrir 20 árum, þegar að ég stofnaði og rak „Dönskuskólann“ í ein 7 ár. Af þessum sökum er spurningin um það hvort að ég ætli að fara að markaðssetja sjálfa mig 56 ára, afar áleitin, og ef ekki sjálfa mig, þá hvað?
Í fyrirlestri sínum, ég held í fyrstu staðlotunni, sagði Magnús að allt væri á markaði. Mikið rétt. Það sem ég get markaðssett er það sem er inni í kollinum á mér; þekkingu, reynslu, innsæi, og hæfileika til að eiga góð samskipti við annað fólk. Og eitt enn, og það er það sem mestu máli skiptir, nefnilega sjálfstraust. Á árunum þegar að ég rak „Dönskuskólann“ vissi ég nákvæmlega hvernig ég ætlaði að sníða námsskeiðin faglega, ég vissi líka hvaða hópa ég ætlaði að krækja í og hvernig ég ætlaði að gera það. Það gekk mjög vel, en það sem var mér erfitt var, að ég átti enga samstarfsaðila. Ég reyndi oft að fá aðra með mér, en ég upplifði að enginn kennari væri tilbúinn til að yfirgefa öryggið sem fylgdi því að fá launin sín vandræðalaust um hver mánaðarmót. Skiljanlega. Á móti kom að nemendurnir voru allir dásamlegir og samskiptin við fullorðna fólkið sem kom til að æfa sig í tala dönsku og læra meira um danska menningu varð í sumum tilfellum að áralangri vináttu. Og nú stend ég í þeim sporum, að velta því fyrir mér hvernig að ég eigi að nýta mér þessa menntun sem allra best. Stofna nýtt fyrirtæki? Reyna að fá vinnu hjá einhverjum þeim aðilum sem standa að fullorðinsfræðslu? Athuga með möguleika á fullorðinsfræðslu erlendis, eða reyna að berjast fyrir fjarnámi og fullorðinsfræðslu í Kvennaskólanum? Ekki frá því að meðvituð og markviss markaðssetning á eigin hugarafli og hæfileikum, sé eitt það erfiðasta sem ég hefið tekið mér fyrir hendur.

Skildu eftir svar