Um ráðstefnu „Stefna og staða í ferðaþjónustu“

Laugardagsmorgun rétt fyrir tíu leggjum við stöllur Hanna og Guðfinna af stað á ráðstefnu um stefnu og stöðu Hafnarfjarðar í ferðaþjónustu. Það er að undirlagi Guðfinnu að við sækjum þessa ráðstefnu.

Ráðstefnan fer fram í Hafnaborg og eru um það bil 100 manns sem mæta á staðinn. Það sem ég hafði í huga var að rýna hvað yrði sagt um markaðssetningu og yfirfæra það á námskeiðið Markaðssetning símenntunar. Hér ætla ég aðeins að stikla á stóru á því sem þrír framsögumenn fjölluðu um.

Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regin fjallaði um uppbyggingu miðbæjarins og hversu mikilvægt það er að skapa umhverfi sem er aðlaðandi og lifandi. Hann benti á hversu miklu máli skiptir að hafa gott samstarf við íbúa bæjarins og þátttöku þeirra í því að byggja upp ferðamennsku og lifandi miðbæ. Góð upplifun íbúa er góð meðmæli með bænum sagði Helgi og ef auka á eða skapa ferðamannaiðnað í Hafnarfirði þurfi að hafa gott samstarf við íbúana þannig að skapaður sé rammi utan um verkefnið svo að ekki reyni á þolmörk íbúa eða náttúru

Sandra Brá Jóhannsdóttir sveitastjóri í Skaftárhreppi fjallaði um ferðamenn í sveitarfélaginu sem er annað stærst í landinu með 475 íbúa. Þar er verið að hefja greiningu markaðsumhverfis. Það er eins með markaðsetningu ferðamennsku á náttúruperlum landsins og annari markaðsetningu að greiningin er það sem skiptir megin máli. Það þarf að skoða innri og ytri styrkleika og veikleika með tilliti til hinna ýmsu breyta eins og þolmörk náttúru og mannauðs.

 

Þuríður Halldóra Aradóttir, framkvæmdastjóri Visit Reykjanes var með kynningu á verkefni sem hefur verið unnið um ferðamennsku Reykjanes. Hún lagði áherslu á það að ímynd skiptir máli og það sem þarf að ákveða í upphafi er hvernig og hvað á að markaðsetja og hvernig á að stýra ferðamennsku um svæðið. Þuríður benti Söndru á að það væri komin út skýrsla sem gæti verið þeim góð leiðbeining í gegnum sína markaðsetningu.

Það kom skýrt fram hjá öllum að vörumerkið (Brand) skiptir miklu máli. Í upphafi þarf að ákveða fyrir hvað vörumerkið á að standa. Þetta er það sem við höfum verið að skoða í tímum með Hróbjarti: Hver erum við, fyrir hverja og nánar… fyrir hverja á námskeðið að vera og hvað á að koma út úr því, þ.e. hverju eru þátttakendur nær að námskeiði loknu.

Ráðstefnan staðfestir það að galdurinn á bak við góða markaðsetningu er að vera með „rétta“ vöru (námskeið, þjónustu) sem uppfyllir kröfur neytandans/þátttakandans og þar með réttlætir það verðið sem greitt er fyrir vöruna. Þá þarf að huga að vera á réttum stað á réttum tíma. Stærð markhópsins ákvarðast af því hvernig við skilgreinum hann og hvernig við fáum hann til þess að tileinka sér það að taka þátt og að þeim líki vel við þátttökuna því ánægðir viðskiptamenn eru góð auglýsing. Þó svo að þessi ráðstefna hafi ekki verið um markðasetningu námskeiða þá er hægt tengja margt af því sem kom fram á ráðstefnunni við umræðuefni á námskeiðinu.

Skildu eftir svar