„Markaðshlutun er skipting ólíks, sundurlauss markaðar í smærri samstæðari markaðshluta til að geta betur náð til viðkomandi hópa, þjónað þeim með vörum og þjónustu sem kemur til móts við þarfir þeirra.“ (Magnús Pálsson og Hróbjartur Árnason.
Í síðustu viku var tími í „Markaðssetningu fræðslutilboða fyrir fullorðna“ hjá Magnúsi Pálssyni og Hróbjarti Árnasyni, þar sem rætt var um hvernig við getum gert námsferil meira spennandi til að höfða til ákveðins hóps. Þar reyndum við að átta okkur á markaðshlutun, markaðsmiðun, aðgreiningu og staðfæringu.
Magnús benti á að það myndi líklega ekki gagnast mikið að bjóða upp á „námskeið fyrir þunglynda“, en kannski væri gagnlegra að bjóða upp á „námskeið fyrir dansara“. Þá þurfti náttúrulega einhver að skjóta inn, „hvað um námskeið fyrir þunglynda dansara?“ Þessi hugmynd var kannski sett fram meira í gríni en alvöru.
Næsta dag sat ég fund með myndlistarkonu. Ég starfa hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnsesjum sem verkefnastjóri. Mikill hluti af starfinu fer í að skipuleggja og framkvæma námsleiðir frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, einnig vinn ég í nokkrum Evrópuverkefnum og set saman ný námstilboð með þeim tilgangi að bæta lífi og krafti í menninguna á svæðinu.
Hugmyndin í þetta sinn var að setja saman myndlistarnámskeið með listakonu sem hafði sett upp Gallerý og var áberandi á Hafnargötu í Keflavík á Ljósanótt. Við sátum fund saman til að skrifa námskeiðslýsingu. Við settum saman markmið og hæfniviðmið, ákváðum fjölda og lengd, kostnað og verð, umgjörð og forsendum, en þegar koma að markhópi og ég spurði hana fyrir hverja námskeiðið væri hugsað, þá svaraði hún: „fyrir alla“.
Þá spurði ég hana hvort hún gæti mögulega hugsað sér einhvern þrengri hóp. Henni þótti frekar erfitt að þrengja hópinn, hafði alltaf ímyndað sér að svona námskeið væru einfaldlega fyrir alla, en hún sagði mér að einhvern tíma hafði hún spurt fylgjendur sína á Instagram hvort þeir hefðu áhuga á námskeiði hjá henni. Þá höfðu ríflega 30 manns sagt að þau kæmu hiklaust.
Út frá þessu poppuðu upp nokkrar hugmyndir hjá okkur. Okkur fannst fyrri hugmyndin frekar sniðug, en seinni hugmyndin betri. Hugsanlega hafa einhverjir af þeim sem lesa þetta blogg ennþá betri hugmyndir, og þá væri gaman að heyra þær.
- Hugmynd 1: „Byrjendanámskeið í olíumálun fyrir hressar konur á Suðurnesjum – Landslagsmynd“
- Hugmynd 2: „Byrjendanámskeið í olíumálun fyrir fylgjendur Eybjargar Daníelsdóttur – Landslagsmynd“
Fyrri hugmyndin fannst okkur frekar fyndin og skera sig úr, og hún nær til ákveðins markhóps, kvenna á Suðurnesjum, sem líta á sig sem hressar manneskjur. Þá væri hugmyndin að halda annað námskeið fyrir hressa karla, og finna ólíka markhópa með hverju tilboði. Og það er að sjálfsögðu enn þá hægt.
En okkur fannst seinni hugmyndin betri þar sem hún passar við nákvæmlega þann markhóp sem myndlistamaðurinn var búinn að greina yfir þá sem hefðu áhuga á að taka þátt í námskeiði hjá henni. Við ætlum að prófa þá nálgun og sjá hvernig fer.
Hefur þú hugmynd um hvernig við getum gert betur? Það væri spennandi að heyra það.
Ég held Elínborg sé með þetta. Með því að birta efni á Instagram nær hún sambandi við fólk sem heillast af svipaðri myndlist og hún er að búa til, þannig býr hún til sinn markhóp, sem hún getur talað við. Það er úr þessum hópi sem hún fær sína diggustu námsmenn á námskeið. Sjá umræðu um lágmarks lífvænlegan markhóp: https://markadssetning.namfullordinna.is/2021/09/16/lagmarks-lifvaenlegur-markhopur/
Skemmtileg þessi pæling með for-markaðssetningu sem kannski hefur alls ekki verið hugmynd Eybjargar þegar hún fyrst byrjaði að setja inn efni á Instagram og svo að gera könnun á því hver kæmi á námskeið. Allt gæti þetta verið hluti af markaðsherferð. Um að gera að læra af þessu og byggja upp markaðssetningu með þessum þáttu í auknu mæli. Læra af því sem gengur vel 🙂
Þetta hefur verið skemmtilegt verkefni.
Það seldist upp á námskeiðið á hálfum degi þannig að við ákváðum að bjóða upp á annan hóp.
Eybjörg hefur brosað hringinn síðan á föstudag.
Ykkur er velkomið að kíkja á námskeiðið þó að það þýði akstur til Keflavíkur í tvö kvöld. 😉
https://www.mss.is/nam/namskeid-og-namsbrautir/1423