námskeið til sölu – kostar eina tölu

Nú er ég frekar mikill byrjandi í markaðsmálum og hef ekki hugað að markaðssetningu námskeiða fyrr en nú. Ég hafði ekki gert mér nokkra grein fyrir því hvað þarf að huga að mörgu við markaðssetningu. Mér fannst bara liggja beint við að búa til einfalda auglýsingu, setja upp eitthvað verð og mynd og ýta svo á send til allra helstu auglýsinga- og bréfsnifsa bæjarins. Hugmynd mín um markaðssetningu hefur líklegast verið frekar einföld hingað til… Á síðustu vikum hef ég fengið örlitla innsýn inn í heim markaðsmálanna í þessum ágæta áfanga. Virði, markaðshlutun og nú kauphegðun. Það sem fram kemur í námsefninu er svolítið common sense… svona þegar maður er búinn að lesa það.

Námskeiðin sem ég er að vinna að eru ætluð foreldrum. Þau snúa að tengslamyndun við börn, samskiptum, uppeldisaðferðum og svo mörgu fleiru sem tengist barnauppeldi. Námskeiðin verða bæði almenn en möguleiki er á að bjóða uppá sérhæfðari námskeið fyrir ákveðinn hóp foreldra. En hverjum, hvað, hvenær og hvernig á ég að selja þessi námskeið? Hver hefur t.d. áhrif á að foreldri komi á námskeiðið? Er það foreldrið sjálft sem á upptökin að því að skrá sig eða er það mögulega erfið hegðun barns sem ýtir undir að foreldrið vill sækja sér meiri þekkingu til þess að takast á við þessar erfiðu aðstæður? Er foreldrið sent á námskeið af þriðja aðila? Allt þetta getur haft áhrif á hegðun þess sem kaupir námskeiðið.

Með áhrifaþætti kauphegðunar í huga þá tel ég að samfélagið og menningin geti haft þónokkuð um það að segja hverjir koma á námskeið. Samfélagið mótar okkur alveg sama hvað við erum að gera. Segjum sem svo að viðhorfið í samfélaginu sé þannig að þeir sem fara á foreldranámskeið hljóti að vera slæmir foreldrar. Hvergi mega sjást vankantar eða veikleikar í uppeldinu og foreldrar gætu talið að þeir yrðu stimplaðir sem vondir foreldrar með því að mæta. Mín upplifun er því miður sú að margir foreldrar láta einmitt þessi viðhorf samfélagsins hafa áhrif á skoðanir gagnvart foreldrafræðslu.  

Nútímasamfélag býður upp á margskonar markaðssetningu. Eitt af því sem mér dettur í hug að hægt væri að gera til þess að normalísera þessa fræðslu, gera hana að viðfangsefni sem flestra foreldra, er að koma á samstarfi við áhrifavald. Þetta er nútíma leið til að ná til fólks og mér finnst við þurfa að fylgja þeim leiðum hverju sinni. Þá á ég við að fá áhrifavald eða þjóðþekktan einstakling til þess að tala opinskátt um foreldranámskeið og segja frá jákvæðri upplifun sem hann/hún varð fyrir og reyna þannig að ,,lokka” fólk á námskeið. Mér finnst þetta samt svolítið á gráu svæði. Margir sem fylgja áhrifavöldum verða fyrir áhrifum frá þeim og vilja kaupa/nota/eiga sömu vörur og þeir. Með þessari leið aukast mögulega líkurnar á því að við fáum þátttakendur á námskeið en er það á réttum forsendum?

Margar bjöllur fara að hringja og rauð flögg af stað í hausnum á mér varðandi þessa nálgun. Siðferðiskenndin mín segir mér að þetta sé rangt. Er ég kannski bara föst í gömlum viðhorfum samfélagsins um að kauphegðun mín og annarra þurfi að stýrast af eigin forsendum eða er kannski bara í lagi að þessar nútíma leiðir í gegnum samfélagsmiðla stýri kauphegðun okkar?

Magnadóttir ™

4 thoughts on “námskeið til sölu – kostar eina tölu”

  1. Mér finnst þetta áhugaverðar hugleiðingar hjá þér, Hildur, og ég held að það geti verið mikið til í þessu með að eigin fordómar eða viðhorfið í samfélaginu geti hindrað fólk í að taka þátt í fræðslutilboð. Það kemur líka vel heim og saman við þá kenningu að kauphegðun snúist ekki aðeins um einhverja rökrétta ákvörðun í huga neytandans (Information Processing Approach) heldur er þetta oft ákvörðun sem er lituð af menningu, samfélagi og ekki síst tilfinningum (Comsumer Culture Theory).
    Þegar þú íhugar að nýta þér áhrifavalda í markaðssetningu foreldrafræðslu þá er kannski líka vert að spyrja sig hvort þú náir til rétta fólksins þannig, þ.e. fólksins sem þarf á fræðslu að halda? Er það endilega fólkið sem eyðir miklum tíma á samfélagsmiðlum og fylgist með áhrifavöldunum? Ég veit það ekki því ég er ekki sjálf þar og ég velti stundum fyrir mér hvort ofuráhersla á markaðssetningu með áhrifavöldum (influencer marketing) gerir það að verkum að einhverjir markaðshópar „gleymast“ eða markaðssetningin „missir marks“ af því að hún gerir ekki ráð fyrir fólkinu sem er ekki virkt á samfélagsmiðlunum.

    1. Takk fyrir svarið Helle. Mér persónulega finnst einmitt á gráu svæði að nota influencer marketing til þess að auglýsa foreldranámskeið eins og fram kemur í blogginu. Ég tel samt að þannig væri einmitt hægt að ná til hóps einstaklinga sem halda að þeir þurfi ekki fræðslu. Mín hugmynd með þessu var að normalísera þessi námskeið, að foreldrar sæju að þau væru fyrir hvern sem er, líka áhrifavalda. Foreldranámskeið eiga að að mínu mati að vera fyrir hvern sem er sem vill standa sig vel í uppeldishlutverkinu. Vissulega er alltaf einhver hópur sem fylgist ekki með áhrifavöldum og hægt væri að ná til þeirra með öðrum leiðum. Ég held samt að hægt væri að ná til mjög margra með þessari aðferð markaðssetningar.

  2. Hildur Inga, þú segir: „Segjum sem svo að viðhorfið í samfélaginu sé þannig að þeir sem fara á foreldranámskeið hljóti að vera slæmir foreldrar. Hvergi mega sjást vankantar eða veikleikar í uppeldinu og foreldrar gætu talið að þeir yrðu stimplaðir sem vondir foreldrar með því að mæta. Mín upplifun er því miður sú að margir foreldrar láta einmitt þessi viðhorf samfélagsins hafa áhrif á skoðanir gagnvart foreldrafræðslu.“

    Mér finnst þetta athugavert og svolítið öfugsnúið, því að mér hefur aldrei dottið í hug að foreldrar sem sæki foreldranámskeið fái á sig stimpil sem slæmir foreldrar, heldur þvert á móti, hljóti það að vera fólk sem vill bæta sig, sem er alltaf gott. Ekkert okkar er fullkomið.

    Væri ekki sniðugt að fara af stað með herferð um það hvað þú hlýtur að vera æðislegur foreldri ef þú sækir foreldrafræðslu?

Skildu eftir svar