að skapa Tengsl og að segja sögu

Seth Godin stiklar á stóru í síðasta hlaðvarpsþætti sínum um „Seth Godins’ Startup School“ frá 1. júlí 2013: „Distinct and Direct“. Aðal umræðuefnið er hvernig skapa megi tengsl við væntanlega viðskiptavini og hann nefnir ýmsar sniðugar leiðir. Hann mælir t.d. með að nota tölvupóst frekar en t.d. Twitter færslur til að halda tengslum. Eitthvað sem kom mér svolítið á óvart þar sem ég hélt að tölvupóstar væru að verða úrelt fyrirbæri – sérstaklega í markaðssetningu. En eins og Seth bendir á: Fólk sem skráir sig á póstlista hjá þér treystir þér en fólk sem lækar Twitter færslu frá þér er fljótt að sveipa áfram í næsta og gleymir þér svo um leið. Tölvupóstar og ekki síst tölvupóst-listar eru því verkfæri sem er vel þess virði að vinna áfram með. Það sama kom reyndar fram á vef-námskeiði sem ég sótti nýlega varðandi tölvupóstforritið Mailchimp sem mér skilst sé eitt mest notaða tölvupóstforritið í markaðssetningu fyrirtækja í dag. Ég mæli með að skoða þá möguleika sem það hefur upp á að bjóða varðandi hönnun á tölvupóstum, uppsetningu póstlista og sjálfvirkar póstsendingar af ýmsu tagi.

Seth hélt áfram í hlaðvarpsþætti sínum að segja frá árangursríkri en frekar óhefðbundinni leið til að ná sambandi við rétta fólkið t.d. í fyrirtæki eða stofnun þar sem þarf að sannfæra stjórnendur um virði ákveðinnar vöru eða þjónustu. Ég ætla ekki að fara í smáatriði með leiðina en í stórum dráttum snýst hún um að þekkja hlutverk ólíkra aðila í fyrirtækinu og nýta sér það til þess að ná í gegn. Fá fólk til að vinna vinnuna sína og „gera það sem það á að gera“ og um leið bera boðskapinn þinn til æðstu stjórnenda. Mér varð hugsað til þeirrar áskorunar sem ég stend oft frammi fyrir í mínu starfi þegar ég er að reyna að ná sambandi við stjórnendur í ólíkum stofnunum og sannfæra þá um virði þess að senda starfsfólk sitt á námskeið til mín. Oft þýðir lítið að reyna að tala beint við stjórnandann sem er önnum kafinn við að slökkva elda í starfsmannahópi með manneklu og mikilli starfsmannaveltu. Réttara væri að reyna að kynnast betur hlutverkum ólíkra aðila innan stofnunarinnar og að finna út hver gæti komið boðskapnum til skila fyrir mig.

Síðast en ekki síst talar Seth um mikilvægi þess að segja sögu. Það snýst um að gera fólk forvitið og segja ekki of mikið svo það fái áhuga á að heyra meira um hvað þú hefur upp á að bjóða. Það snýst líka um að gefa fólki sögu til að muna eftir og geta sagt öðrum frá. Seth skrifar líka um mátt sögunnar í bloggi sínu „And there’s a story at the heart of it“ frá 12. maí 2020 (https://seths.blog/2020/05/and-theres-a-story-at-the-heart-of-it/). „Það eru sögurnar sem breyta okkur, fá okkur til að grípa til aðgerða og að segja öðrum frá“, skrifar hann en það er nákvæmlega það sem fyrirtæki vilja ná með markaðssetningu sinni. Það er því mikilvægt að kunna að segja sögu og reyndar býður Seth upp á sérstakt námskeið um nákvæmlega það. Ég hugsa að ég gæti alveg bætt mig í því að segja sögu um fræðslutilboðin mín. Ég hef yfirleitt verið mjög upptekin af því að segja frá öllum staðreyndum en í leiðinni kannski misst af tækifærinu til að gera fólk forvitið, gefa þeim eitthvað til að muna eftir eða segja öðrum frá.

2 thoughts on “að skapa Tengsl og að segja sögu”

  1. Spennandi.

    Ég er ekki ennþá farinn að skoða námskeiðin hjá Seth Godin, enda á ég nóg með sjálfan mig í augnablikinu – fullt af verkefnum og svo námið hjá HÍ. Þegar traffíkin minnkar væri örugglega gaman að skoða betur námskeiðin hjá honum. Mér líkar virkilega vel við það sem hann hefur fram að færa.

    Einnig áhugavert að heyra um MailChimp. Er það betra en Outlook og Gmail að einhverju marki?

    1. MailChimp er í rauninni fullbúinn markaðssetningar-pakki sem gefur þér möguleika á að búa til herferðir og fá tölfræðileg gögn um virkni þeirra. Ég er sjálf stutt komin í að nýta mér allt það sem boðið er upp á, enda á þetta ekki allt við í mínu starfi. En ég hef nýtt mér verkfæri MailChimp sem snýr að hönnun tölvupósta til að búa til fréttabréf og mér finnst fréttabréfin fyrir vikið verða meira aðlaðandi og bjóða upp á aukin samskipti og samstarf (sem er í rauninni markmiðið). Þú getur séð dæmi um fréttabréf sem ég hef tekið þátt í búa til í MailChimp hér: https://www.fjolmennt.is/is/radgjof/frettabref-radgjafardeildar

Skildu eftir svar