Sitt hvor hliðin á peningnum

Sami peningurinn ?

Enn er ég upptekin af fræðslu sem markaðsvöru og kennslu, miðlun, leiðbeiningum og þjálfun sem þjónustu. Við móttökum upplifun, vöru eða þjónustu eða öðlumst frekari hæfni og verðum meiri menn. Er einhver munur á markaðssetningu á vöru og þjónustu og fræðslu?
Skoðun mín hefur styrkst enn frekar í þá veru að þarna fari saman svo líkir hlutir að mér dettur í hug að líka því við sögu vísindanna um sköpun heimsins í samandburði við sköpunarsöguna eins og hún birtist í biblíunni. Við erum að tala um sitthvora hliðina á sama peningnum. Grunngildin eru það lík, stefið er það sama. Mig langar að máta síbreytilega sannfæringu mína um þennan skyldleika við pé-in sjö í markaðsfræðinni.
Við viljum miðla einhverju manna á milli, við verðum að vita hvað það á að vera. Það er fyrsta pé-ið „Product“, varan eða það sem við höfum fram að færa. Á einhvern hátt gerum við þarfagreiningu, þetta gerum við líka í fræðslumálum. Við kennum ekki bara eitthvað né heldur framleiðum bara eitthvað. Við hnoðum saman vöru úr hugmynd, til þess þurfum við einhverja uppskrift, leyfum henni að hefast, bökum og bjóðum.
Ekkert hér í heimi er í raun og veru ókeypis, einhver þarf að borga brúsann, finna þarf sanngjarnt verð hvort sem er fyrir fræðslutilboð eða almenna vöru og þjónustu. Sú greiðsla sem innt er af hendi þarf að minnsta kosti að dekka þann kostnað sem lagt hefur verið út fyrir auk þóknunar til þess að sá sem það gerði. Sú greiðsla þarf að minnsta kosti að tryggja að hann lifi af og geti greitt námslánin. Þarna er annað pé-ið „Pricing“.
Allt sem við veljum að gera verður að hafa áferð og laða einhvern að því sem við höfum fram að færa. Þriðja pé-ið er „Promotion“, útlitið, umbúðirnar, framkoman. Þetta snýst um hvernig við ætlum að ná athygli og komast á stefnumót við kaupanda eða nemanda. Hvorki seljum við eða kennum án þess að hafa fylgjendur. Hér verðum við að sýna fram á mögulegt gildi okkar.
Að koma á réttum stað á réttum tíma skiptir máli. Næsta pé er „Placement“. Hvorki selst vara né fer fram nám ef fólk fer á mis. Hér eru stundvísi og sveigjanleiki saman í línudansi. Allar tímasetningar, staðsetningar og viðmið verða að standast ásamt 360 gráðu breytileika fyrir ólíka einstaklinga.
Ef við ætlum að vaxa og dafna verðum við að kanna stöðuna reglulega og vega og meta hvernig okkur miðar. Þar kemur fimmta pé-ið „Physical evidence“ inn. Hér þurfum við að greina sérstöðu okkar.
Í beinu framhaldi tekur við vinna að framförum varðandi þá hluti sem við urðum áskynja við skoðun okkar á gengi vörunnar, áhrifum námsins, upplifun nemandans eða þjónustuþegans. Sjötta pe-ið „Process“ gefur okkur tækifæri til að festa jákvæða hluti í sessi. Nýta okkur meðbyr, mála þakið í sólskininu og laða að okkur viðskiptavini og nemendur á skipulagðan hátt. Gerum kennsluáætlun eða aðgerðaáætlun (action program).
Sjöunda og síðasta pé-ið getur hvort heldur sem er verið það flóknasta eða það einfaldasta, „People“. Fólk sveiflast eins og strá í vindi, tekur ófyrirséðar ákvarðanir en sýnir um leið sterka hjarðhegðun félagsverunnar. Þar gilda sömu lögmál hvort heldur sem við erum að tala um fræðslutilboð fyrir fullorðna eða almenna vöru eða þjónustu. Samfélagið, tíðarandinn, tískan og áhrifavald leiðtoga innan hópa þarf að gefa okkur takt til að dansa eftir hvert sem framboð okkar eru. Hér þurfum við að sanna gildi okkar. Framboðið fylgir eftirspurninni. En ef við eigum framboðið þá getum við gert ýmislegt til að stjórna eftirspurninni. Eða hvort kom nú á undan, hænan eða eggið? Það fara ekki fram viðskipti ef ekkert er til sölu.
Ég er eiginlega alveg sannfærð. Það gilda ekki nein sérstök lögmál um markaðssetningu fræðslutilboð. Það sem einn bíður öðrum er lítur alltaf svipuðum lögmálum við markaðssetningu.

One thought on “Sitt hvor hliðin á peningnum”

  1. Gaman að sjá pælingarnar um Péin. Held að það sé hárrétt hjá þér að lögmál markaðssetningar eigi heima í fullorðinsfræðslu.

    Þegar kemur að sjöunda Péinu, fólk (eða Pólk), velti ég fyrir mér þegar við tölum saman, erum við að selja hugsun okkar? Þegar einhver hlustar, er viðkomandi að kaupa? Þegar við hlustum á hvert annað og tölum saman erum við í viðskiptum?

    Mér dettur í hug svolítið sem ég tók eftir hjá MacDonalds í Noregi fyrir nokkrum árum. Þar stóð skýrum stöfum bakvið starfsfólkið, ef ég man rétt: „A smile costs nothing“. Ég held að þetta hafi hvatt viðskiptavini til að brosa til starfsfólksins sem brosti á móti, og sköpuðu þannig þægilegt andrúmsloft á ansi stressandi vinnustað. Þegar við brosum til hvert annars höfum við tilhneigingu til að brosa til baka . Að hægt sé að markaðsfæra einfaldan hlut eins og bros er hrein snilld.

Skildu eftir svar