Hvað selur?

Ég hef mikið velt fyrir mér í gegnum þennan áfanga hvað það er sem selur og hvernig megi nýta það til að markaðssetja námsefni. Það eru ótal birtingarmyndir á því hvernig fyrirtæki auglýsa vörur sínar. En hvað hentar fyrir námskeið? Eftir lestur kaflans um kynningarmál fór ég að velta fyrir mér ýmsum leiðum. Mér finnst það hafa vaxið gríðarlega að fá samfélgasmiðlastjörnur til að auglýsa fyrir sig vörur. Ef maður flettir í gegnum samfélagsmiðla þá er varla hægt að horfa á story hjá einstaklingum sem starfa á samfélagsmiðlum án þess að verið sé að auglýsa vörur. En væri námskeið eitthvað sem væri mögulegt að kynna með þessum hætti? Það væri vissulega hægt að kosta auglýsingu á samfélagsmiðlum og láta hana birtast í news feedi þeirra sem við teljum markhópinn. En hitt held ég að væri ekki svo árangursríkt. 

Þá fór ég að hugsa um afslátt eða að gefa eitthvað með námskeiðinu. Það er mjög vinsælt í dag að gefa afslátt ef þú skráir þig fyrir einhvern ákveðinn tíma. Þú getur líka skráð þig á námskeið og fengið eitthvað frítt með, t.d. gjafakort í Pennanum eða eitthvað álíka. Ég fór eitt sinn á heilsunámskeið sem var undirbúningsnámskeið fyrir annað námskeið sem kom í kjölfarið. Þetta var 4 vikna námskeið haldið 2x í viku. Það voru um þúsund manns á námskeiðinu. Þegar þessar 4 vikur voru liðnar var hægt að skrá sig á 16 vikna námskeið sem kostaði mikla peninga. Verðið var aldrei gefið upp fyrr en í lok kynningarnámskeiðsins og það var afsláttur ef maður skráði sig fyrir ákveðinn tíma. Það voru um hundrað manns á seinn námskeiðinu – um 10% nemenda héldu áfram. Mér fannst ansi vel af sér vikið að ná 100 manns á námskeiðið en 10% er samt ansi lág prósenta. En þessi markaðssetning fannst mér samt mjög áhugaverð. Gefa fyrst „sýnishorn“ og selja svo framhaldið. Þetta er eitthvað sem mig langar að skoða betur í minni nálgun við framsetningu námstilboðs.

One thought on “Hvað selur?”

  1. Áhugaverðar pælingar Ingibjörg. Já það er býsna algengt að bjóða upp á afslátt fyrir þá sem skrá sig snemma. Ég get ímyndað mér að í mörgum tilfellum sé þetta leið til að tryggja fljótt einhvern lágmarks fjölda sem þarf til að námskeiðið standi undir kostnaði og svo er allt sem bætist þar ofan á auka hagnaður.

Skildu eftir svar