Greinasafn fyrir flokkinn: Uncategorized

Sitt hvor hliðin á peningnum

Sami peningurinn ?

Enn er ég upptekin af fræðslu sem markaðsvöru og kennslu, miðlun, leiðbeiningum og þjálfun sem þjónustu. Við móttökum upplifun, vöru eða þjónustu eða öðlumst frekari hæfni og verðum meiri menn. Er einhver munur á markaðssetningu á vöru og þjónustu og fræðslu?
Skoðun mín hefur styrkst enn frekar í þá veru að þarna fari saman svo líkir hlutir að mér dettur í hug að líka því við sögu vísindanna um sköpun heimsins í samandburði við sköpunarsöguna eins og hún birtist í biblíunni. Við erum að tala um sitthvora hliðina á sama peningnum. Grunngildin eru það lík, stefið er það sama. Mig langar að máta síbreytilega sannfæringu mína um þennan skyldleika við pé-in sjö í markaðsfræðinni.
Við viljum miðla einhverju manna á milli, við verðum að vita hvað það á að vera. Það er fyrsta pé-ið „Product“, varan eða það sem við höfum fram að færa. Á einhvern hátt gerum við þarfagreiningu, þetta gerum við líka í fræðslumálum. Við kennum ekki bara eitthvað né heldur framleiðum bara eitthvað. Við hnoðum saman vöru úr hugmynd, til þess þurfum við einhverja uppskrift, leyfum henni að hefast, bökum og bjóðum.
Ekkert hér í heimi er í raun og veru ókeypis, einhver þarf að borga brúsann, finna þarf sanngjarnt verð hvort sem er fyrir fræðslutilboð eða almenna vöru og þjónustu. Sú greiðsla sem innt er af hendi þarf að minnsta kosti að dekka þann kostnað sem lagt hefur verið út fyrir auk þóknunar til þess að sá sem það gerði. Sú greiðsla þarf að minnsta kosti að tryggja að hann lifi af og geti greitt námslánin. Þarna er annað pé-ið „Pricing“.
Allt sem við veljum að gera verður að hafa áferð og laða einhvern að því sem við höfum fram að færa. Þriðja pé-ið er „Promotion“, útlitið, umbúðirnar, framkoman. Þetta snýst um hvernig við ætlum að ná athygli og komast á stefnumót við kaupanda eða nemanda. Hvorki seljum við eða kennum án þess að hafa fylgjendur. Hér verðum við að sýna fram á mögulegt gildi okkar.
Að koma á réttum stað á réttum tíma skiptir máli. Næsta pé er „Placement“. Hvorki selst vara né fer fram nám ef fólk fer á mis. Hér eru stundvísi og sveigjanleiki saman í línudansi. Allar tímasetningar, staðsetningar og viðmið verða að standast ásamt 360 gráðu breytileika fyrir ólíka einstaklinga.
Ef við ætlum að vaxa og dafna verðum við að kanna stöðuna reglulega og vega og meta hvernig okkur miðar. Þar kemur fimmta pé-ið „Physical evidence“ inn. Hér þurfum við að greina sérstöðu okkar.
Í beinu framhaldi tekur við vinna að framförum varðandi þá hluti sem við urðum áskynja við skoðun okkar á gengi vörunnar, áhrifum námsins, upplifun nemandans eða þjónustuþegans. Sjötta pe-ið „Process“ gefur okkur tækifæri til að festa jákvæða hluti í sessi. Nýta okkur meðbyr, mála þakið í sólskininu og laða að okkur viðskiptavini og nemendur á skipulagðan hátt. Gerum kennsluáætlun eða aðgerðaáætlun (action program).
Sjöunda og síðasta pé-ið getur hvort heldur sem er verið það flóknasta eða það einfaldasta, „People“. Fólk sveiflast eins og strá í vindi, tekur ófyrirséðar ákvarðanir en sýnir um leið sterka hjarðhegðun félagsverunnar. Þar gilda sömu lögmál hvort heldur sem við erum að tala um fræðslutilboð fyrir fullorðna eða almenna vöru eða þjónustu. Samfélagið, tíðarandinn, tískan og áhrifavald leiðtoga innan hópa þarf að gefa okkur takt til að dansa eftir hvert sem framboð okkar eru. Hér þurfum við að sanna gildi okkar. Framboðið fylgir eftirspurninni. En ef við eigum framboðið þá getum við gert ýmislegt til að stjórna eftirspurninni. Eða hvort kom nú á undan, hænan eða eggið? Það fara ekki fram viðskipti ef ekkert er til sölu.
Ég er eiginlega alveg sannfærð. Það gilda ekki nein sérstök lögmál um markaðssetningu fræðslutilboð. Það sem einn bíður öðrum er lítur alltaf svipuðum lögmálum við markaðssetningu.... Meira...

að skapa Tengsl og að segja sögu

Seth Godin stiklar á stóru í síðasta hlaðvarpsþætti sínum um „Seth Godins’ Startup School“ frá 1. júlí 2013: „Distinct and Direct“. Aðal umræðuefnið er hvernig skapa megi tengsl við væntanlega viðskiptavini og hann nefnir ýmsar sniðugar leiðir. Hann mælir t.d. með að nota tölvupóst frekar en t.d. Twitter færslur til að halda tengslum. Eitthvað sem kom mér svolítið á óvart þar sem ég hélt að tölvupóstar væru að verða úrelt fyrirbæri – sérstaklega í markaðssetningu. En eins og Seth bendir á: Fólk sem skráir sig á póstlista hjá þér treystir þér en fólk sem lækar Twitter færslu frá þér er fljótt að sveipa áfram í næsta og gleymir þér svo um leið. Tölvupóstar og ekki síst tölvupóst-listar eru því verkfæri sem er vel þess virði að vinna áfram með. Það sama kom reyndar fram á vef-námskeiði sem ég sótti nýlega varðandi tölvupóstforritið Mailchimp sem mér skilst sé eitt mest notaða tölvupóstforritið í markaðssetningu fyrirtækja í dag. Ég mæli með að skoða þá möguleika sem það hefur upp á að bjóða varðandi hönnun á tölvupóstum, uppsetningu póstlista og sjálfvirkar póstsendingar af ýmsu tagi.... Meira...

Er menntun eins og hver önnur vara?

Ég velti því fyrir mér hvort nám, námskeið, námsframboð og boð um hvers konar fræðslu sé eins og hver önnur vara eða þjónusta sem boðin er til sölu eða afnota af einhverju tagi. Fyrirfram hélt ég að önnur lögmál giltu, en hefði samt engin sérstök rök fyrir því í eigin huga.
Áður en ég mætti í fyrsta tímann í Markaðssetning fræðslutilboða fyrir fullorðna hjá Hróbjarti og Magnúsi velti ég því stuttlega fyrir mér hvað við værum að fara að læra á þessu námskeiði. Ég sá á kennsluáætluninni að við ætluðum meðal annars að svara eftirfarandi spurningum: „Hvernig hönnum við og skipuleggjum námskeið eða önnur námstilboð þannig að þau höfði til þeirra sem þau eru skipulögð fyrir? Hvernig náum við til „réttu“ þátttakend-anna? Hvernig er hægt að nota nýja miðla til að ná til þátttakenda?“ (Hróbjartur Árnason og Magnús Pálsson, kennsluáætlun, NAF005F haust 2021). Enn var ég viss um að það færi engin að skipuleggja námskeið, setja saman námsbraut eða stofna skóla nema hafa örugga viðskiptavini. Annað hvort væri sérstaklega óskað eftir fræðslunni af nemendunum, frá atvinnulífinu, að hið opinbera vantaði nám til að tryggja að hægt væri að fullnægja markmiðum eða eitthvað slíkt. Þetta var um það bil það sem var að gutla í höfðinu á mér. Enn var hugsunin frekar grunn og á eins konar floti í hausnum á mér því ég hafði aldrei velt því fyrir mér áður hvort lögmálin væru önnur.
Þá fór ég að reyna að svara spurningunni frá hinu sjónarhorninu. Hvað drífur einhvern áfram í að selja einhverja vöru eða þjónustu. Án þess að vera búin að lesa mikið í fræðunum, held ég að það sé tvennt. Markaðurinn kallar á eitthvað sem þú átt í pokahorninu eða þú ert alveg viss um að vera með eitthvað í þínum fórum sem þú getur miðlað til annarra, annað hvort frá sjálfum þér eða sem milliliður. Sá sem hefur sölu á nýjum gosdrykk hlýtur að luma á rosalegri uppskrift eða vera nokkuð viss um þorsta eða löngun hjá einhverjum hópi og sér þar tækifæri. Þetta hafði ég talið mér trú um og það hefur styrkst með lestrinum í haust. Áfram var spurningin þó opin og ég fór smá saman að sannfærast um að það væri ekki munur á námsframboði og öðru framboði.
Enn eitt sjónarhornið sem ég fór að skoða var eigin reynsla. Af hverju fór ég að bjóða upp á námskeið þar sem ég kenni um hugmyndafræði Uppbyggingar (e. Restitution) og verkfæri og leiðir til að vinna með hana í inni í menntastofnunum? Hvað dreif mig áfram? Í mínu tilviki þá lærði ég um hugmyndafræðina, vann samkvæmt henni, gerðist leiðbeinandi og tók virkan þátt í félagsskap áhugafólks um fræðin áður en ég fór að bjóða upp á námskeið. En hvers vegna? Svarið er líklega tvíþætt, eftirspurnin var og er mikil og ég er viss um að aðrir geti nýtt sér það sem ég hafði lært. Þannig að ef ég ber það saman við gosdrykkjaframleiðandann þá var ég bæði með góða uppskrift í mínum fórum (framboð) og hóp þyrstra tilvonandi neytenda (virk eftirspurn).
Þegar kom að því að mæta í innilotu og byrja að kafa enn frekar í fræðunum, hvað kom í ljós? Ekkert var minnst á sérstöðu náms eða fræðslutilboða samanborið við aðra vöru eða þjónustu sem markaðssett er. Mörg skemmtileg dæmi voru tekin og enginn sérstakur stallur eða eitthvað slíkt fyrir þessa gerð af vöru. Annað kom mér meira á óvart að þekking mín og reynsla af uppbyggingunni mun líklega koma mér mun meira að gagni en ég hafði fyrir fram átt von á. Mikill tími fór í heimspekilegar umræður um vöxt, trúverðugleika, raunverulegt virði og hvernig hver og einn verður að átta sig á því fyrir hvað hann stendur til að geta byggt það upp.
Ég hlakka enn meira til að læra meira um markaðssetningu fræðslutilboða því nú finnst mér markaðsfræði sem jafnvel er að gufa upp sem ein stök fræðigrein enn meira spennandi sem grein tvinnuð inn í félagsfræði, sálfræði og aðrar greinar sem fjalla um hegðun, framkomu og samskipti okkar mannanna.
Í námsbókinni okkar Foundations of Marketing segja höfundarnir, John Fahy og David Jobber meðal annars að menntastofnanir hafi orðið markaðsdrifnar í auknu mæli. Þeir segja samfara samfélagslegum breytingum hafi samkeppni um nemendur aukist. Þeir segja háskóla hafa þurft að skilgreina sig upp á nýtt, búa til vörumerki og fara í markaðsherferðir og kynningar. Þeir segja skóla hafa farið út í samskonar greiningavinnu og fyrirtæki við að bera kennsl á væntanlega viðskiptavini og þeir hafi breytt þjálfun fyrir þjónustu í þeim tilgangi að breyta fyrirspurnum í sölu (2019:13). Þarna er menntun bara tekin sem dæmi eins og hvert annað fyrirbæri.
Ætli mitt ævistarf, kennsla og miðlun þekkingar, sé hvorki nokkuð merkilegri né ómerkilegri en hver önnur vara eða þjónusta. Markaðsfræði er markaðsfræði og ég hlakka til að kynnast nánar þeim lögmálum sem gilda þegar kemur að þessari hlið mannlegs eðlist því þetta eru víst engin geimvísindi heldur endalaus spírall þar sem við kynnumst nánar hegðun út frá framboði, eftirspurn, trúverðugleika, virði, tengslum, gæðum, vexti, samkeppni, vali, vörum, staðsetningu, menningu, ferlum, aðgengi og upplifun svo eitthvað sé nefnt.... Meira...

Markaðsrannsóknir á netinu.

Hafið þið ekki tekið eftir öllum þessum prófum/könnunum sem er verið að bjóða okkur að taka á netinu.  Ótrúlega sniðugt og oft fyndnar niðurstsöður. En hvað býr að bak við þetta…… jú auðvitað markaðsrannsóknir og hegðun okkar skráð á netinu af þeim sem setja þetta inn. Við gefum aðgang að öllum upplýsingum sem eru t.d. á Facbook hjá okkur og þeir sem standa fyrir þessum „prófum“ greina okkur og skrá það niður. Hvað er svo gert við þessar upplýsingar.  Jú það er verið að greina áhugamál okkar og kortleggja nethegðun okkar. Það sem mér finnst eins og er merkilegasta notkun á því sem verið er að nota svona upplýsingar í er að það verið að skrá mannlega hegðun til þess að útbúa vélar með gervigreind. Það er sem sagt fyrirtæki sem eru að kaupa nethegðun okkar og greina mannlega þáttinn. Það hafa verið búin til margskonar forrit þar sem tölvur, þegar þær hafa verið mataðar upplýsingum vinna mörgum sinnum hraðar en mannsheilinn. Þar er tæki eins og vasareiknir einna þekktastur, forrit sem er hægt  að tefla skák við en ógjörningur að vinna því það hefur verið forritað með öllum hugsanlegum leikfléttum.  Heimsmeistari í skák í dag er tölva….. Allt þetta hefur orðið til vegna markaðsetningar á margvíslegu efni sem við skoðum, tökum þátt í og oftast án þess að hugsa út í það hvað býr á bak við .    ... Meira...

Google+ og YouTube

YouTube er núna í eigu Google og þar af leiðandi tengist Youtube aðgangurinn bæði G-mailinu og Google+ forritinu. Youtube er vefsíða þar sem hægt er að deila myndböndum. Einstaklingar, félög, fyrirtæki, listafólk og allir þeir sem vilja geta búið til aðgang og sett sín myndbönd á netið. Mikið af tónlistarmyndböndum eru inn á Youtube síðunni og getur tónlistarfólk sem og aðrir komið lögum sínum, myndböndum og/eða öðru efni á framfæri á auðveldan hátt á Youtube. Undanfarið hafa fleiri stofnanir komið sínum vörum eða málefni á framfæri á Youtube. Hægt er að búa til aðgang eða rás þar sem upplýsingar um notandann koma fram. Síðan er hægt að tengja rásina sína við aðrar rásir sem maður hefur áhuga á. Einnig er hægt að útbúa spilunarlista þar sem maður velur lög eða myndbönd sem maður vill horfa/hlusta á eða deila til annarra. Auðvelt er að setja myndbönd inn á vefinn og meira að segja býður Youtube upp á svokallað „creator studio“ þar sem hægt er að búa til myndbönd úr ljósmyndum, sýna beint frá viðburði eða koma sinni rás á framfæri. Einnig er hægt að útbúa svokölluð „video-blog“ þar sem tekin er upp glærukynning af einhverju og sýnd sem myndband. Möguleiki er að stofna umræðuvef um rásina auk þess sem auðvelt er að skrifa athugasemdir við myndböndin sem maður setur inn. Google+ svipar að einhverju leiti til Facebook. Þar setur maður fólk í ákveðna hópa t.d. fjölskylda, vinir, kunningjar og aðrir. Síðan er hægt að deila með ákveðnum hóp eða öllum myndum, myndböndum (í gegnum Youtube aðganginn sem er tengdur Google+ aðganginum), hugsunum sínum og fréttum. Inn á Google+ síðunni geta aðdáendur skrifað umsagnir og komist í samband við aðila síðunnar. Að auki er hægt að tengjast ákveðnu samfélagi á Google+ sem er tengt því sem maður hefur áhuga á. Hægt er að velja um samfélög sem fjalla um allt milli himins og jarðar. Þegar búið er að tengjast samfélaginu fær maður tilkynningar um það sem tengist því efni. Hægt er að koma góðum upplýsingum á framfæri um það viðfangsefni sem fyrirtækið/stofnunin/einstaklingurinn stendur fyrir bæði á Youtube og Google+.... Meira...